Lífið

Æðstu embættismenn vilja brauðið sitt vel ristað

Kristín Ólafsdóttir skrifar
54% svarenda kusu ljósgyllt ristað brauð og 31% svarenda völdu dökkgyltan blæ. Enginn vildi brauðið brennt.
54% svarenda kusu ljósgyllt ristað brauð og 31% svarenda völdu dökkgyltan blæ. Enginn vildi brauðið brennt. Vísir
Yfirgnæfandi meirihluti Íslendinga vill brauðið sitt meðalristað. Þá vildi enginn brauðið brennt, eldri útivinnandi konur kjósa ljósgyllt brauð og Sjálfstæðismenn eru líklegri til að vilja dökkbrúnt brauð. Þetta kemur fram í niðurstöðum könnunar MMR um viðhorf Íslendinga til ristaðs brauðs.

Könnun MMR var framkvæmd dagana 6.-14. júní og var svarfjöldi 947 einstaklingar. Könnunin fór þannig fram að svarendum voru sýndar myndir af sex mismunandi ristuðum brauðsneiðum þar sem númer gáfu til kynna samsvarandi stillingu á brauðrist (1-6). Í kjölfarið var þeim boðið að velja það sem kæmist næst óskum þeirra um hið fullkomna „ristabrauð.“

Af brauðsneiðunum sex voru tvær meðalristaðar brauðsneiðar (stillingar 3 og 4 sem gefa ljós- eða dökkgyllta áferð). Í ljós kom að yfirgnæfandi meirihluti, eða 85%, kusu annan hvorn þessara gylltu tóna.

54% svarenda kusu ljósgyllt ristað brauð og 31% svarenda völdu dökkgyltan blæ. Enginn vildi brauðið brennt.

Konur á aldrinum 68 ára og eldri og ekki útivinnandi voru líklegastar til að vilja brauðið sitt ljósgyllt. Þá voru stjórnendur og æðstu embættismenn líklegri en aðrar starfsstéttir til að vilja brauðið sitt dökkbrúnt (næstdekksta stillingin) og Sjálfstæðismenn líklegri en stuðningsmenn annarra flokka til að vilja brauðið dökkbrúnt. Þeir voru auk þess ólíklegastir til að vilja ristaða brauðið ljósgyllt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×