Lífið

Sigur Rós sendir andstæðingi hinseginréttinda tóninn

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Jónsi í Sigur Rós er ekki ánægður með Margaret Court.
Jónsi í Sigur Rós er ekki ánægður með Margaret Court. Vísir/AFP

Hljómsveitin Sigur Rós hefur svarað fordómafullum ummælum ástralsks prests, og fyrrum tennisstjörnu, með skilaboðum sem sveitin lét prenta á boli. Presturinn fordæmdi samkynja hjónabönd í maí síðastliðnum en hljómsveitin lét útbúa bolina sérstaklega fyrir tónleikaferð sína um Ástralíu nú í júlí.

Listamaðurinn Andrew Rae hannar bolina en framan á þeim sjást tvö pör, tvær konur annars vegar og tveir karlmenn hins vegar, sem halda sín á milli á giftingarhringum. Þá sjást bæði íslenski og ástralski fáninn á bolunum, auk ýmissa kyngervismerkja og annarra skreytinga. Fyrir miðju á bolnum stendur á íslensku „Sameinuð stöndum vér.“

Margaret Court, sem þekktust er fyrir farsælan tennisferil, starfar nú sem prestur í borginni Perth í Ástralíu. Hún vakti athygli með ummælum sínum í maí síðastliðnum þegar hún fordæmdi flugfélagið Quantas fyrir að styðja samkynja hjónabönd. Hún bætti einnig um betur með fleiri ummælum, lituðum af fordómum í garð samkynhneigðra.

Í tilkynningu, sem Sigur Rós birti á Facebook-síðu sinni, segir að sveitin hafi fyrirskipað gerð bolanna sérstaklega fyrir væntanlegt tónleikaferðalag sitt. Bolirnir séu framleiddir vegna ummæla Margaret Court, starfandi prests og fyrrum tennisstjörnu, en sveitin mun spila á leikvangi nefndum í höfuðið á henni í lok júlí.

„Við vitum að skoðanir Margaret Court eru ekki algildar í Ástralíu. Við viljum bæta rödd okkar við ákall fyrir jöfnun réttindum til hjónabands í Ástralíu – akkúrat hérna á Margaret Court Leikvanginum sjálfum,“ segir í tilkynningunni frá sveitinni.

Ágóði af sölu bolanna mun renna til góðgerðarsamtaka sem berjast fyrir lögleiðingu samkynja hjónabanda í Ástralíu.

Sigur Rós mun spila á Margaret Court-leikvanginum þann 27. júlí næstkomandi.
Fleiri fréttir

Sjá meira