Enski boltinn

Jón Daði farinn til Reading

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jón Daði lék með Wolves á síðasta tímabili.
Jón Daði lék með Wolves á síðasta tímabili. vísir/getty

Landsliðsframherjinn Jón Daði Böðvarsson er genginn í raðir Reading frá Wolves.

Jón Daði stóðst læknisskoðun hjá Reading í dag og skrifaði í kjölfarið undir þriggja ára samning við félagið. Selfyssingurinn flýgur svo til Hollands þar sem nýju liðsfélagar hans eru í æfingaferð.

Jaap Stam, knattspyrnustjóri Reading, segist í samtali við heimasíðu félagsins vera ánægður með að hafa krækt í Jón Daða.

„Jón Daði getur spilað í okkar kerfi og getur leyst nokkrar stöður innan þess; sem fremsti maður, annar af tveimur framherjum eða sem kantmaður,“ sagði Stam.

„Hann er duglegur, stór en samt góður á boltanum, býr yfir hraða svo hann er góð viðbót við okkar hóp.“

Reading var hársbreidd frá því að komast upp í ensku úrvalsdeildina á síðasta tímabili en liðið tapaði fyrir Huddersfield í vítaspyrnukeppni í úrslitaleik í umspili á Wembley.

Reading er fjórða liðið sem Jón Daði spilar með eftir að hann yfirgaf uppeldisfélagið Selfoss eftir tímabilið 2012. Hann lék með Viking í Noregi á árunum 2013-15, Kaiserslautern seinni hluta tímabilsins 2015-16 og svo með Wolves á síðasta tímabili. Jón Daði skoraði þrjú mörk í 42 deildarleikjum fyrir Úlfana.

Jón Daði mun spila í treyju númer 23 hjá Reading.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira