Enski boltinn

Jón Daði farinn til Reading

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jón Daði lék með Wolves á síðasta tímabili.
Jón Daði lék með Wolves á síðasta tímabili. vísir/getty
Landsliðsframherjinn Jón Daði Böðvarsson er genginn í raðir Reading frá Wolves.

Jón Daði stóðst læknisskoðun hjá Reading í dag og skrifaði í kjölfarið undir þriggja ára samning við félagið. Selfyssingurinn flýgur svo til Hollands þar sem nýju liðsfélagar hans eru í æfingaferð.

Jaap Stam, knattspyrnustjóri Reading, segist í samtali við heimasíðu félagsins vera ánægður með að hafa krækt í Jón Daða.

„Jón Daði getur spilað í okkar kerfi og getur leyst nokkrar stöður innan þess; sem fremsti maður, annar af tveimur framherjum eða sem kantmaður,“ sagði Stam.

„Hann er duglegur, stór en samt góður á boltanum, býr yfir hraða svo hann er góð viðbót við okkar hóp.“

Reading var hársbreidd frá því að komast upp í ensku úrvalsdeildina á síðasta tímabili en liðið tapaði fyrir Huddersfield í vítaspyrnukeppni í úrslitaleik í umspili á Wembley.

Reading er fjórða liðið sem Jón Daði spilar með eftir að hann yfirgaf uppeldisfélagið Selfoss eftir tímabilið 2012. Hann lék með Viking í Noregi á árunum 2013-15, Kaiserslautern seinni hluta tímabilsins 2015-16 og svo með Wolves á síðasta tímabili. Jón Daði skoraði þrjú mörk í 42 deildarleikjum fyrir Úlfana.

Jón Daði mun spila í treyju númer 23 hjá Reading.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×