Enski boltinn

Fjölmenni við útför besta vinar Jermains Defoe | Myndir

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Bradley Lowery og Jermain Defoe voru miklir vinir.
Bradley Lowery og Jermain Defoe voru miklir vinir. vísir/getty

Bradley Lowery, stuðningsmaður Sunderland, var lagður til hinstu hvílu í dag.

Bradley lést fyrir viku, aðeins sex ára gamall, eftir erfiða baráttu við krabbamein.

Barátta Bradleys við krabbameinið vakti mikla athygli á Englandi. Hann var lukkudrengur á leik Sunderland og Everton í fyrra þar sem hann kynntist Jermain Defoe, leikmanni Sunderland. Með þeim tókst mikil vinátta en Defoe var duglegur að heimsækja Bradley sem fékk m.a. að leiða hann inn á Wembley fyrir landsleik Englands og Litháen í vor.

Þúsundir flykktust út á götur Blackhall Colliery, heimabæjar Bradleys, í dag til að votta honum virðingu sína.

Fjölmargir voru klæddir í fótboltabúninga, þ.á.m. fjölskylda Bradleys og Defoe sem var í enska landsliðsbúningnum með nafni vinar síns á bakinu.

„Hann var sönn ofurhetja sem fór alltof snemma frá okkur,“ sagði Gemma, móðir Bradleys, við athöfnina.

„Hann snerti við svo mörgum. Hann var elskandi og indæll sonur og bróðir; gullfalleg stjarna.“


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira