Lífið

Peningalaust samfélag á Stöðvarfirði

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Haukur Björgvinsson, Gígja Sara Björnsson og Viktor Pétur Hannesson standa að óvenjulegri bæjarhátíð á Stöðvarfirði þar sem peningar eru einskis virðir.
Haukur Björgvinsson, Gígja Sara Björnsson og Viktor Pétur Hannesson standa að óvenjulegri bæjarhátíð á Stöðvarfirði þar sem peningar eru einskis virðir. Samsett mynd/Pólar Festival
Skapandi samvinnuhátíð stendur nú yfir á Stöðvarfirði. Pólar festival er matar-, menningar- og tónlistarveisla á sunnanverðum Austfjörðum. Hátíðin er haldin í þriðja sinn og er nokkuð frábrugðin öðrum og hefðbundnari bæjarhátíðum. Þeir sem leggja leið sína austur á bóginn til Stöðvarfjarðar þurfa nefnilega ekki að hafa pening meðferðis. Bækistöðvar hátíðarhaldanna umbreytast í peningalaust samfélag meðan á hátíðinni stendur dagana 14. -16. júlí.

Allir viðburðir hátíðarinnar eru ókeypis. Austurland styrkti hátíðina þannig að skipuleggjendum er unnt að koma til móts við bensínkostnað þátttakenda. Auk þess hafa skipuleggjendur opnað Facebooksíðuna Samferða á Pólar þar sem fólki er gert mögulegt að samnýta ferðirnar á staðinn. 

Sviðið á Pólar festival er komið í sparibúninginn.Pólar festival
Maður er manns gaman

Hugmyndafræðin sem liggur að baki bæjarhátíðinni er sú að allir eigi að geta skemmt sér vel án þess að peningar spili þar nokkuð inn í. Gígja Sara Björnsson, ein þriggja skipuleggjenda Pólar, var full innblásturs af „Maður er manns gaman“ hátíðinni sem eitt sinn var haldin á Stöðvarfirði. Gígja skipuleggur hátíðina ásamt þeim Hauki Björgvinssyni og Viktori Pétri Hannessyni.

Önnur leið til að kynnast

Hátíðargestir geta valið um tvo staði til að gista á, endurgjaldslaust. Þeim stendur til boða að gista í skóla bæjarins og þá geta þeir einnig tjaldað á tjaldsvæðinu. Í gærkvöldi opnuðu Stöðfirðingar hús sín fyrir Pólar-förum og buðu í mat. „Það er ótrúlega gaman. Þetta er önnur leið fyrir fólk til að kynnast,“ segir Gígja. Hún bendir auk þess á að hátíðin sé tilvalinn vettvangur fyrir ólíka hópa að koma saman. „Það er svo gaman því fólk sem til dæmis er ekki að pæla mikið í listamannalaunum hittir allt í einu listamenn. Fólk situr saman til borðs og það er allt öðruvísi samtal sem á sér stað,“ segir Gígja.

Þátttakendur á Pólar ýmist veiða fisk sér til matar eða ganga upp í hlíðina til að tína jurtir. Sjálfbærni er skipuleggjendum ofarlega í huga.PÓlar festival
Sjálfbærni er hópnum sem stendur að Pólar hugleikin. Hópur gestanna veiðir fisk á meðan aðrir klífa upp brekkuna og tína jurtir sem nýttar verða til að krydda fiskinn. Jurtagangan er undir handleiðslu sérfræðinganna Eyglóar Hilmarsdóttur frá Sóley Organics og Bjarka Sólmundssonar frá Góðgresi. Þau miðla af reynslu sinni og kenna fólki hvað hægt er að tína og í hvað jurtirnar nýtast. „Við eldum síðan öll saman og borðum,“ segir Gígja.

Íslenskt grænmeti styrkti hátíðina með ferskum matvælum.Pólar festival
Fjölbreytt dagskrá

Dagskráin í ár er fjölbreytt og sannarlega þéttofin. Fólki býðst kennsla í flökun, súpugerð og jurtatínslu. Þá verður á dagskrá brúðuleikhús, ljóðaupplestur, fornleifaratleikur, gjörningar, leiklistarsmiðja, tónleikar, flekakeppni, sjósund í sparifötum og hóphugleiðsla svo fátt eitt sé nefnt.

Áhersla er lögð á að fólk komi saman og skapi. Gígja segir að þrátt fyrir að þau þrjú; hún, Haukur og Viktor standi að hátíðinni og skipulagningu hennar, séu það gestirnir sem skapi Pólar.

„Hátíðargestir taka þátt í að skapa og móta hana. Það er mjög mikil samsköpun,“ segir Gígja. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×