Lífið

Heyrðu óðar samsæriskenningar Alex Jones í stíl Bon Iver

Kjartan Kjartansson skrifar
Alex Jones lætur gamminn geysa á Infowars.
Alex Jones lætur gamminn geysa á Infowars. Skjáskot/Youtube

Samsæriskenningasmiðurinn Alex Jones sem heldur úti vefnum Infowars er þekktur fyrir að breiða út dómadagsvitleysu eins og að Barack Obama hafi eitrað vatn í Bandaríkjunum og gert froska samkynhneigða. Gárungar á netinu hafa nú gert myndband af málæði Jones og látið það hljóma eins og Bon Iver-lag.

Það var framleiðslufyrirtækið Super Deluxe sem sérhæfir sig í skondnum og skrýtnum málefnum sem tók saman vel valda reiðilestra frá Jones og setti saman í tónlistarmyndband sem hljómar eins og hljómsveitin hugljúfa Bon Iver. Bandaríska fréttasíðan Vox birti myndbandið sem hefur fengið þúsundir áhorfa.

Engum sögum fer af því hversu hrifinn Justin Vernon, söngvari Bon Iver, er af því að Alex Jones sé látinn hljóma eins og lag með hljómsveitinni. Vísir/Getty

Þrátt fyrir að halda fram þvælu eins og að bandarísk yfirvöld hafi sviðsett fjöldamorðið á börnum í Sandy Hook-grunnskólanum og að Bandaríkjastjórn hafi staðið að hryðjuverkunum 11. september 2001 er Jones með milljónir fylgjenda.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur meðal annars komið sem viðmælandi í þátt Jones.

„Orðspor þitt er ótrúlegt. Ég mun ekki bregðast þér,“ sagði Trump meðal annars við Jones.


Tengdar fréttir

NBC ýfir upp sár foreldra barnanna í Sandy Hook

Foreldar barna sem voru myrt í Sandy Hook eru ósátt við að NBC ætli að birta langt viðtal við alræmdan samsæriskenningasmið sem segir bandarísk stjórnvöld hafa sett fjöldamorðið á svið. Fylgjendur hans hafa áreitt foreldra myrtra barna undanfarin ár.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira