Erlent

Repúblikanar fresta atkvæðagreiðslu um sjúkratryggingar aftur

Kjartan Kjartansson skrifar
Það hefur hvorki gengið né rekið hjá Donald Trump og Mitch McConnell (t.h.) að fá þingmenn repúblikana til að greiða nýjum sjúkratryggingalögum atkvæði sín.
Það hefur hvorki gengið né rekið hjá Donald Trump og Mitch McConnell (t.h.) að fá þingmenn repúblikana til að greiða nýjum sjúkratryggingalögum atkvæði sín. Vísir/Getty
Atkvæðagreiðslu um nýtt sjúkratryggingafrumvarp repúblikana í öldungadeild Bandaríkjaþings hefur verið frestað. Leiðtogi flokksins í þingdeildinni segir ástæðuna fjarveru eins þingmanns en án hans er óvíst að meirihluti sé fyrir frumvarpinu.

Sjúktratryggingafrumvarp repúblikana sem þeir vilja að komi í staðinn fyrir lögin sem Barack Obama setti og hafa verið kennd við forsetann fyrrverandi hafa reynst gríðarlega óvinsæl á meðal almennings.

Upphaflega stóð til að greiða atkvæði um frumvarpið fyrir þinghlé fyrir þjóðhátíðarhelgi Bandaríkjamanna 4. júlí en því var frestað. Nú segir Mitch McConnell, oddviti repúblikana í öldungadeildinni, að atkvæðagreiðslunni verði enn frestað, nú þangað til John McCain, þingmaður flokksins, snýr aftur eftir skurðaðgerð.

Talsmenn McCain hafa sagt að hann verði fjarri góðu gamni í þessari viku á meðan hann jafnar sig eftir aðgerð þar sem blóðtappi var fjarlægður úr höfði hans, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

John McCain hefur sjálfur lýst efasemdum um innihald frumvarpsins en hefur ekki gefið upp hvernig hann mun greiða atkvæði.Vísir/AFP
Erfitt að sætta ólíkar fylkingar innan flokksins

Repúblikanar eru með nauman meirihluta í öldungadeildinni. Þeir hafa 52 þingsæti gegn 46 demókrötum og tveimur óháðum þingmönnum sem binda þó trúss sitt við demókrata í þingstörfunum. Annar þeirrra er Bernie Sanders sem bauð sig fram í forvali Demókrataflokksins gegn Hillary Clinton.

Fyrir utan óvinsældir frumvarpsins á meðal almennings sem gætu haft áhrif á þingmenn sem þurfa að berjast fyrir sætum sínum í þingkosningum á næsta ári hafa repúblikanar skipst í fylkingar gagnvart sjúkratryggingalögunum. Hófsamari repúblikanar hafa ekki getað fellt sig við hversu mikið frumvarpið útvatnar núgildandi sjúkratryggingar en frjálshyggjuarmur flokksins hefur viljað ganga enn lengra í afnámi Obamacare. Það hefur reynst leiðtogum flokksins erfitt að sætta þessi ólíku sjónarmið.


Tengdar fréttir

Repúblikanar byrja að afhjúpa heilbrigðistryggingafrumvarp sitt

Mikil leynd hefur hvílt yfir nýjum frumvarpi repúblikana sem á að koma í staðinn fyrir Obamacare, sjúkratryggingalög Baracks Obama. Fyrstu fréttir benda til þess að milljónir Bandaríkjamanna muni missa sjúkratryggingar verði frumvarpið að lögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×