Enski boltinn

Rashford minnti á sig í öruggum sigri Manchester United

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Valencia, Fellaini, Carrick og Lindgard fagna með Rashford öðru af mörkum hans.
Valencia, Fellaini, Carrick og Lindgard fagna með Rashford öðru af mörkum hans. Vísir/Getty

Ungstirnið Marcus Rashford minnti á sig með tveimur mörkum í fyrri hálfleik í öruggum 5-2 sigri Manchester United gegn LA Galaxy í borg englanna en þetta var fyrsti leikur Manchester United á undirbúningstímabilinu.

Nýjustu liðsmenn Manchester United, Romelu Lukaku og Victor Lindelof, byrjuðu leikinn á bekknum en fengu 45 mínútur í seinni hálfleik í fyrsta leik sínum fyrir félagið.

Það tók Rashford ekki langan tíma til að stimpla sig inn en hann kom gestunum yfir á annarri mínútu og bætti svo við öðru marki á tuttugustu mínútu leiksins.

Belgíski miðjumaðurinn Marouane Fellaini bætti við þriðja markinu sex mínútum síðar og var staðan 3-0 í hálfleik. Gerði Jose Mourinho ellefu breytingar á liði Manchester United í hálfleik.

Gestirnir frá Englandi bættu við tveimur mörkum frá Henrikh Mkhitaryan og Anthony Martial áður en fyrrum Börsungurinn Gio Dos Santos klóraði í bakkan í tvígang fyrir heimamenn.
Fleiri fréttir

Sjá meira