Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: KA - ÍBV 6-3 | Eyjamenn kafsigldir á Akureyri

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Hallgrímur Mar skoraði þrennu.
Hallgrímur Mar skoraði þrennu. vísir/anton

KA-menn unnu stórsigur 6-3 á ÍBV í 11.umferð Pepsi-deildar karla í dag þegar Eyjamenn heimsóttu Akureyrarvöll en bæði lið mættu særð til leiks eftir erfitt gengi að undanförnu.

Eyjamenn fengu sannkallaða draumabyrjun því þeir voru komnir tveim mörkum yfir eftir fimmtán mínútna leik og má kenna sofandahátt í varnarlínu KA-manna um það. Sofandaháttur sem markahrókurinn Gunnar Heiðar Þorvaldsson nýtir jafnan til að skora mörk sem og hann gerði.

Í stað þess að koðna niður risa heimamenn upp og náðu forystunni áður en flautað var til leikhlés. Hreint mögnuð endurkoma hjá KA-mönnum.

Fyrst minnkaði Hallgrímur Mar Steingrímsson muninn eftir góðan undirbúning Ásgeirs Sigurgeirssonar. Hallgrímur Mar bjó svo til mark fyrir Davíð Rúnar Bjarnason um fimm mínútum fyrir leikhlé.

Það var svo komið vel fram í uppbótartíma þegar Hafsteinn Briem var dæmdur brotlegur innan vítateigs fyrir að sparka niður Steinþór Frey Þorsteinsson. Á vítapunktinn steig Hallgrímur Mar og sá til þess að KA fór inn í leikhlé með forystu.

Í síðari hálfleiknum var svo aðeins eitt lið á vellinum en Eyjamenn virtust slegnir eftir viðburðaríkan fyrri hálfleik og komust aldrei í takt við leikinn.

Fyrstur á blað í síðari hálfleik var Almarr Ormarsson en hann prjónaði sig í gegnum lánlausa vörn Eyjamanna og labbaði svo framhjá Halldóri Páli Geirssyni áður en hann kom boltanum yfir línuna. Emil Lyng kom KA svo í 5-2 með keimlíku marki.

Að öðrum KA-mönnum ólöstuðum var Hallgrímur Mar besti leikmaður vallarins í dag og hann kórónaði góðan leik sinn með því að fullkomna þrennuna á 79.mínútu þegar hann skallaði boltann í netið. Kom markið í kjölfarið á vandræðagang í vörn gestanna.

Markaregninu var ekki lokið því varamaðurinn Arnór Gauti Ragnarsson klóraði í bakkann fyrir Eyjamenn í uppbótartíma.

Afhverju vann KA?
Eftir að hafa mætt steinsofandi til leiks tóku KA-menn leikinn yfir þegar staðan var 0-2 fyrir ÍBV. Eyjamenn réðu ekkert við öfluga sóknarlínu KA þar sem Hallgrímur Mar Steingrímsson fór fremstur í flokki. Túfa setti Steinþór Frey Þorsteinsson inn í byrjunarliðið og áttu allir fjórir fremstu menn KA mjög góðan leik.

Þeir létu varnarlínu ÍBV, sem jafnan er talin geysisterk, oft á tíðum líta út eins og byrjendur. ÍBV hefur í gegnum tíðina verið þekkt fyrir mikla baráttugleði og samkennd en því var ekki að heilsa í dag, síður en svo.

Á meðan var það augljóst á KA-mönnum að þeir ætluðu ekki að bíða lengur eftir sigri og sýndu þeir magnaðan karakter að koma til baka eftir mikið áfall snemma leiks.

Hverjir stóðu upp úr?

Sóknarleikur KA er drifinn áfram af Hallgrími og hann var potturinn og pannan í nær öllum aðgerðum KA í dag eins og oftast áður. Skorar þrjú mörk og leggur upp eitt.

Ásgeir Sigurgeirsson og Steinþór Freyr Þorsteinsson unnu virkilega vel með Hallgrími og áttu einnig góðan dag. Þá verður að minnast á Almarr Ormarsson sem var feykilega öflugur á miðjunni og skoraði laglegt mark.

Ekki er hægt að hrósa mörgum leikmönnum ÍBV fyrir sitt framlag nema þá spilandi aðstoðarþjálfaranum, Gunnari Heiðari Þorvaldssyni.

Hann nýtti færin tvö sem hann fékk og skilaði þar með sínu en því miður fyrir hann var það langt frá því að vera nóg fyrir ÍBV í dag.

Hvað gekk illa?
Varnarleikur beggja liða var afar vondur í fyrri hálfleik sérstaklega og þá líta varnarmennirnir jafnan illa út. KA-menn nýttu sér það betur og röðuðu inn mörkum á lánlausa Eyjamenn sem náðu aldrei að laga varnarleik sinn.

Það þarf því líklega ekki að koma neinum á óvart að ÍBV hyggst nýta félagaskiptagluggann til að ná sér í nýjan miðvörð.

Hvað gerist næst?
Eyjamanna bíður hörku fallbarátta og leit að nýjum miðverði þar sem þetta var síðasti leikur Avni Pepa fyrir félagið. Næsti leikur ÍBV er rosalega mikilvægur en þá sækja þeir botnlið Fjölnis heim í Grafarvoginn. Aðeins munar tveimur stigum á liðunum.

KA-menn geta andað léttar eftir afar erfiðar vikur að undanförnu. Þeir sitja nú í fjórða sætinu, um stundarsakir hið minnsta og eiga tvo heimaleiki framundan. Næsti leikur liðsins er gegn Breiðablik.

Einkunnir:

KA (4-2-3-1):
Srdjan Rajkovic 6 – Hrannar Björn Steingrímsson 5, Davíð Rúnar Bjarnason 6, Callum Williams 5, Darko Bulatovic 5 – Aleksandar Trninic 6, Almarr Ormarsson 8 – Steinþór Freyr Þorsteinsson 7 (83. Baldvin Ólafsson - ), Emil Lyng 6 (76. Elfar Árni Aðalsteinsson -), Hallgrímur Mar Steingrímsson 9* (maður leiksins) – Ásgeir Sigurgeirsson 7 (72. Archange Nkumu -)

ÍBV (3-5-2): Halldór Páll Geirsson 4 – Avni Pepa 3, Hafsteinn Briem 3, Matt Garner 3 – Jónas Tór Næs 4, Sindri Snær Magnússon 4, Pablo Punyed 5, Mikkel Maigaard 4 (59. Kaj Leó í Bartalsstovu 5), Felix Örn Friðriksson 5 – Alvaro Montejo Calleja 5 (55. Arnór Gauti Ragnarsson 6), Gunnar Heiðar Þorvaldsson 7 (78. Sigurður Grétar Benónýsson -).

Túfa: Mjög stoltur af strákunum

Það var þungu fargi létt af Túfa, þjálfara KA, enda fyrsti sigurleikur KA síðan 5.júní í húsi.

„Ég er mjög ánægður, fyrst og fremst með að vinna leikinn eftir þrjá tapleiki. Menn eru búnir að vinna rosalega mikið fyrir þessu og æfa vel en hafa ekki verið að uppskera eftir því. Það hefur áhrif á hópinn, andlega. Strákarnir sýndu í dag, það sem ég vissi að býr í þeim. Það er mikill karakter og gott hugarfar. Ég er mjög stoltur af þeim,“ sagði Túfa sem átti erfitt með að lýsa því hvað fór í gegnum huga hans þegar ÍBV var komið tveim mörkum yfir eftir fimmtán mínútna leik.

„Það er erfitt að útskýra það. Ég á ekki orð yfir það. Ég hef svo mikla trú á mínu liði og ég vissi að við gætum betur svo ég byrjaði strax á kalla á mína menn að halda haus.“

Túfa segir það klárt að KA muni reyna að sækja sér liðsstyrk á meðan félagaskiptaglugginn er opinn en fékkst ekki til að segja hvaða stöður hann ætlar sér að styrkja.

„Við ætlum að reyna að styrkja okkur. Ég get ekki sagt þér neitt meira um það, hvernig og hversu mikið við munum styrkja okkur. Við höfum lent í áföllum, bæði með meiðsli og annað sem veldur því að við þurfum að þétta hópinn okkar aðeins fyrir komandi átök,“ segir Túfa.

KA eru nýliðar í Pepsi deildinni og sitja í 4.sæti eftir 11 leiki en gætu þó fallið aðeins neðar í töflunni áður en 11.umferðin klárast. Túfa kveðst ánægður með spilamennskuna hjá KA í sumar en er ósáttur við stigasöfnunina.

„Frammistaða liðsins í sumar hefur verið mjög góð fyrir utan tvo hálfleika í þessum ellefu leikjum. Ég er hinsvegar ekki ánægður með stigasöfnunina, ég myndi vilja vera með fleiri stig og við ætlum að ná þeim í seinni hlutanum, “  sagði Túfa að lokum.

Kristján: Þurfum að fara í naflaskoðun

Kristján Guðmundsson, þjálfari ÍBV, var vonsvikinn með frammistöðu síns liðs á Akureyrarvelli í dag.

„Mér finnst við ekkert hafa verið inn í þessum leik, alveg frá upphafi, jafnvel þó við skorum þessi tvö mörk í byrjun. Við gerðum mjög lítið til að vinna okkur inn þá forystu. Við fengum á okkur dauðafæri eftir eina og hálfa mínútu og það var leikurinn. Við nýtum þessi tvö mörk frá Gunna ekki til að koma okkur inn í leikinn. Leikurinn okkar heldur áfram að vera jafn slakur og hann var í byrjun og við höldum bara áfram að láta smyrja okkur.“

„Við vorum undir í allri baráttu. Töpum öllum návígum og hopum undir þessu. Við látum hluti, sem eiga ekki að fara í taugarnar á okkur, fara í taugarnar á okkur og skemma fyrir okkur. Við reyndum að stíga út úr því en það gekk ekki sérstaklega vel,“ segir Kristján.

Avni Pepa lék í dag sinn síðasta leik fyrir ÍBV og segir Kristján að hann ætli sér að finna nýjan varnarmann í stað Pepa.

„Hann hefði viljað klára þetta betur en það gekk ekki. Við stefnum á að fá inn mann fyrir hann. Það eru svo einhverjar líkur á að við gerum eitthvað meira í glugganum.“

ÍBV hefur fengið gagnrýni fyrir að hafa ekki reynt að klófesta Eyjamanninn Eið Aron Sigurbjörnsson sem gekk til liðs við Vals á dögunum. Hvað hefur Kristján að segja um það?

„Það sem ég veit um það mál var að liðið hans úti var ekkert að reyna að losa sig við hann. Á þeim tímapunkti sem þetta kom upp, í kringum áramót held ég að það hafi verið, vorum við með tvo hafsenta sem voru að fara að spila mótið.“

ÍBV er aðeins tveim sætum frá fallsvæðinu þegar mótið er hálfnað og gætu raunar verið í fallsæti þegar 11.umferðin klárast en það ræðst af úrslitum ÍA, Víkings Ó. og Fjölnis. Kristján segir ljóst að ýmislegt þurfi að laga í leik liðsins.

„Þetta hefur verið gríðarlega skrikkjótt. Það er sérstakt hvernig liðið kemur í leikina og misjafnt. Við þurfum að fara í naflaskoðun. Mótið er hálfnað og við fáum á okkur sex mörk hérna í 11.umferð. Við eigum ekki að spila svona eins og við gerum í dag, við getum ekki gert það ef við ætlum okkur eitthvað,“  sagði Kristján að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir
    Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.