Innlent

Fátækt ekki aumingjaskapur

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Ásta Dís Guðjónsdóttir flutti ræðu um málefni fátækra á Sumarþingi fólksins.
Ásta Dís Guðjónsdóttir flutti ræðu um málefni fátækra á Sumarþingi fólksins. Ásta Dís
„Það velur sér enginn að vera fátækur,“ segir Ásta Dís Guðjónsdóttir, forsvarskona Samtaka fólks í fátækt. Hún var á meðal þeirra sem hélt framsögu á Sumarþingi fólksins sem fór fram í gær. Fundurinn var fjölsóttur en Ásta telur að um 850-900 manns hafa mætt í salinn í Háskólabíó.

Ásta Dís fjallaði um fátækt í áhrifaríkri ræðu sem hún flutti. Hún talaði um þá skömm sem virðist umlykja fátækt. „Það er óneitanlega staðreynd að fátækt hrifsar til sín mennsku okkar svo að hlutskiptið verður vonleysi, skömm og þjáning. Þeir sem ekki þekkja fátækt af eigin raun segja að hún sé ekki samfélagsmein heldur persónuleg klemma vanhæfra, efnalausra einstaklinga sem kunna bara ekki að „pluma sig,” segir Ásta. Að sögn Ástu ættu allir að vita, sem hefðu snefil af skilningi á málefnum fátækra, að það sé ekki hægt að komast upp úr fátækt með því að neita sér um fríðindi og leggja harðar að sér. 

Segir kerfið vinna gegn fátækum

Það kostar meira að vera fátækur en ríkur, segir Ásta. Efnað fólk geti auðveldlega svikist undan skyldum sínum við samfélagið. “Kerfið er nefnilega búið til af hinum ríku og vinnur stanslaust gegn hinum fátæku,” segir Ásta.



Ásta Dís segir að það þurfi kjark, áræðni, úthald, styrk og útsjónarsemi að takast á við hvern einasta dag í fátækt.Vísir/Getty
Fátækt ekki aumingjaskapur

Ásta er ötul baráttukona fyrir því að þeir efnaminni varpi frá sér skömminni. „Fátækt er ekki aumingjaskapur því það þarf kjark, áræðni, hörku, úthald, styrk og útsjónarsemi til að takast á við hvern einasta dag í jafn erfiðum aðstæðum og fátækir þurfa að takast á við – einangraðir á bak við skömmina sem fylgir fátækt í ríku samfélagi því þannig þurrkast varaforði einstaklingsins hraðar út af lífsbatterýinu og við endum í heilsufarslegri og andlegri kreppu ásamt félagslegri einangrun,“ segir Ásta.

Í samtali við Vísi segir Ásta brýnt að fólk geri sér grein fyrir að fátækt er raunveruleiki á Íslandi. „Það er til fátækt á Íslandi og hún er ekki bara einkamál þeirra sem búa við fátæktina.“ Það séu pólitískar ákvarðanir sem geri það að verkum að fólk lendi í fátæktargildru.

Að fá að standa jafnfætis öðrum

Ásta segir að þetta snúist ekki bara um það eitt að lifa af. „Þú þarft að eiga líf sem er þess virði að lifa,“ segir Ásta sem bætir við að mannsæmandi líf þýði að líða vel og að standa jafnfætis öðrum í samfélaginu. Að sögn Ástu einkennist viðhorfið í samfélaginu af því að fólk líti svo á að fátækir þurfi einfaldlega að herða sig. Það sé viðhorf sem sé byggt á miklum misskilningi því Ásta Dís bendir á að fátækir geti ekki keypt húsnæði þrátt fyrir að það hagræði í matarinnkaupum. 

„Stundum finnst fólki eins og maður vilji bara taka af þeim sem eru ríkir. Þetta snýst ekkert um það. Með meiri jöfnuði tryggjum við að þeir verst settu í samfélaginu – hvort sem það eru eldri borgarar, fatlaðir eða fátækir – geti átt mannsæmandi líf,“ segir Ásta að lokum.

Ásta Dís segir Ingu Sæland, formann Flokks fólksins, hafa staðið fyrir samkomunni. Ásta vill þó koma því á framfæri að Pepp Ísland: Samtök fólks í fátækt tengist ekki neinum stjórnmálaflokki. Samtökin leitist við að berjast fyrir hagsmunum fátækra með því að vinna með öllum flokkum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×