Erlent

Macron ítrekar ábyrgð Frakka á örlögum 13 þúsund Gyðinga í París

Heimir Már Pétursson skrifar
Benjamin Netanyahu forsætisráðherra Ísraels var viðstaddur minningarathöfnina í dag og sagði að fyrir 75 árum hafi mikill skuggi lagst yfir París, borg ljósanna.
Benjamin Netanyahu forsætisráðherra Ísraels var viðstaddur minningarathöfnina í dag og sagði að fyrir 75 árum hafi mikill skuggi lagst yfir París, borg ljósanna. Vísir/AFP

Emanuel Macron forseti Frakklands segir Frakka ekki geta vikist undan ábyrgð sinni á því þegar um þrettán þúsund gyðingum var safnað saman fyrir 75 árum og sendir áfram í útrýmingarbúðir nasista. Forsætisráðherra Ísraels var gestur á minningarathöfn um voðaverkin í París í dag.

Dagana 16. og 17. júlí árið 1942 voru rúmlega þrettán þúsund gyðingar, konur, börn og karlmenn handtekin og komið fyrir á hjólreiðaleikvangi skammt frá Effelturninum í París að skipan nasista sem þá höfðu hertekið landið. Franska hernámsstjórnin sem kölluð var Vichy stjórnin vann með hernámsliði Þjóðverja og sá lögregla á hennar vegum um handtökurnar. Fólkið var síðan allt sent í hinar hryllilegu útrýmingarbúðir í Auschwitz og lifðu aðeins tæplega hundrað manns þá þolraun af. Um fjögur þúsund börn voru meðal þeirra sem sendir voru í búðirnar.

Emmanuel Macron forseti Frakklands fylgdi fordæmi Jacques Chirac sem fyrstur Frakklandsforseta viðurkenndi þátt Frakka í voðaverkunum árið 1995 og gekkst við þætti Frakka eins og Nicolas Sarkozy og Francois Hollande fyrrverandi forsetar höfðu einnig gert. En það var ekki fyrr en árið 2009 sem Hæstiréttur Frakklands úrskurðaði að Frakkar bæru einnig ábyrgð á örlögum fólksins.

„Frakkland viðurkenndi mistök sín og leitaðist þar með við að bæta fyrir þau. Það ber vott um mikilleika þjóðarinnar, það ber vott um að þjóðin er lifandi og kann að horfast í augu við fortíð sína, það sýnir hugrekki þjóðarinnar sem þorir að skoða samvisku sína og bjóða fórnarlömbum og afkomendum þeirra útrétta sáttarhönd,“ sagði Macron meðal annars við minningarathöfnina í dag.

Benjamin Netanyahu forsætisráðherra Ísraels var viðstaddur minningarathöfnina í dag og sagði að fyrir 75 árum hafi mikill skuggi lagst yfir París, borg ljósanna.

„Ég er kominn hingað til að syrgja með ykkur og minnast fórnarlambanna. Eiginkona mín, Sara, missti alla fjölskyldu sína í helförinni. Við komum öll saman og syrgjum fórnarlömbin en á sama tíma segjum við stolt: "Am Israel Rai", Ísraelska þjóðin lifir,“ sagði Benjamin Netanyahu.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira