Innlent

Karlar þurfi betri fyrirmyndir

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Starri opnar á umræðuna um sjálfsvíg karla.
Starri opnar á umræðuna um sjálfsvíg karla. Starri Hauksson
„Það líður ekki sá mánuður að ég horfi ekki á eftir einhverjum sem ég þekki persónulega eða er tengdur einhverjum sem ég þekki sem fremur sjálfsvíg. Oft ungir strákar sem ættu að eiga framtíð, óskrifaða og bjarta, hafa hæfileika og vini allt ætti að vera gott.“ Þetta segir Starri Hauksson í pistli sem hann birti á Facebooksíðu sinni undir yfirskriftinni „Karlar drepa - sjálfa sig.“ Pistillinn hefur farið hátt á samskiptamiðlinum en honum hefur verið deilt hátt í eitt hundrað sinnum.

Starra er margt til lista lagt. Hann er einn af rekstraraðilum Gauksins, hann býr til tölvuleiki og þá skrifar hann auk þess leikrit. Hann bjóst ekki við svona miklum viðbrögðum en ljóst er að Starri hefur hreyft við mörgum með skrifum sínum.

Í pistlinum reynir Starri að gera sér mynd af ástandinu í samfélaginu og fanga hvað það er sem við gerum rangt í uppeldi drengja. „Það er nefnilega eitthvað að, eitthvað í grunnmyndinni sem við erum ekki að ráða við, eitthvað í grasrótinni, í fróðleiks vatninu sem við drekkum og gerir okkur að því sem við erum,“ segir Starri. Það sé brýnt og raunar fyrir öllu að við horfumst í augu við vandamálið. Karlar þurfi að breytast með samfélaginu sem við búum í.

Af pistlinum að dæma sést glögglega að Starra eru fyrirmyndir ofarlega í huga. Hann segist horfa með aðdáun á konur sem hafa slitið sig lausar frá fornöld. „Á tímum opinnar umræðu höfum við fyrirmyndir,“ segir Starri sem telur að hörkutól heimsins séu slæmar fyrirmyndir fyrir karlmenn. Þá séu talsmenn sem setji sig upp á móti femínisma ekki gagnlegir heldur. „Látum bara stelpurnar aðeins í friði, stöndum með þeim en einbeitum okkur að okkur sjálfum,“ segir Starri.

Starri segir tímabært að karlmenn líti inn á við og taki þátt í þeim jákvæðu breytingum sem eiga sér stað í samfélaginu. „Við búum enn við ótrúlega mikið af fáránlegum gildum og hugmyndum og höftum; við erum að drepa okkur, ekki allir en allt of margir,“ segir Starri í pistli sínum sem lýkur á óskum um breytingar:

„Ég á mér þann draum að við tölum saman, án þess að vera með stæla eða afsakanir, án þess að vera með ásakanir eða meting, að við getum farið að brjóta þetta ömurðar mynstur sem að er þarna enn þá og heldur okkur í einhverri firringu sem að gerir okkur að karlmönnum í stað þess að leyfa okkur bara að vera manneskjur. Mig langar svo ótrúlega mikið að það fari að koma mér á óvart þegar að einhver drepur sig, að ég hætti að hugsa, fokk, hver er næstur.“



Hér að neðan er hægt að lesa pistilinn í heild sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×