Innlent

1600 gráða heitur málmur lak eftir gólfinu

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
"Þetta er aðeins hættulegt ef menn hafa ekki þekkingu á aðstæðum," segir Kristleifur.
"Þetta er aðeins hættulegt ef menn hafa ekki þekkingu á aðstæðum," segir Kristleifur. vísir/jói k.

Bráðinn málmur flæddi úr ofni í kísilverksmiðju United Silicon í Helguvík í nótt með þeim afleiðingum að slöngur og  rafmagnskaplar eyðilögðust. Málmurinn var 1600 gráða heitur en starfsmönnum tókst sjálfum að ná tökum á honum áður en slökkvilið bar að garði, að sögn Kristleifs Andréssonar, umhverfis- og öryggisstjóra verksmiðjunnar.

Eldglæringar eins og af stjörnuljósum
„Það sem það gerðist í nótt var að það yfirfylltist deigla, sem er ílátið sem málmurinn rennur í, þannig að málmurinn fór á gólfið. Hann er 1600 gráðu heitur þannig að þegar hann lendir á gólfinu þá gýs upp gríðarlegur reykur og það verða eldglæringar eins og af stjörnuljósum,“ segir Kristleifur í samtali við Vísi. Hann segir að aldrei hafi verið um eiginlegan eldsvoða að ræða.

Kristleifur segir hárrétt viðbrögð starfsmanna hafa skipt sköpum. „Þeir slökktu á ofninum, rýmdu bygginguna og kölluðu til viðbragðsaðila. Reykurinn hvarf fljótt og þá fóru þeir sjálfir inn og náðu tökum á málminum sjálfum.“

Aðspurður segir hann starfsfólk hafa mikla þekkingu á hvernig bregðast skuli við í aðstæðum sem þessum og því hafi engin hætta verið á ferðum.

„Þetta er aðeins hættulegt ef menn hafa ekki þekkingu á aðstæðum. Bráðinn málmur er auðvitað stórhættulegur ef þú nálgast hann of mikið en menn sem þekkja aðstæður og vita hvernig málmurinn hagar sér eru ekki í hættu.“

Þriðja ferðin á þremur mánuðum
Um er að ræða þriðja útkall slökkviliðsins að verksmiðjunni á þremur mánuðum. Hinn 4. apríl síðastliðinn kviknaði eldur í vörubrettum og lagði þá talsverðan reyk frá kísilverinu. Tveimur vikum síðar varð mikill eldsvoði og ákvað Umhverfisstofnun þá að stöðva starfsemi verksmiðjunnar.

Aðspurður hvort öryggismálum sé ábótavant segir Kristleifur svo ekki vera. „Það kviknaði þarna fyrst í rusli og þá tókst starfsmönnum sjálfum að slökkva eldinn. Svo kom eldsvoði en í dag varð enginn eldur. Það hefur bara orðið tjón af eldi einu sinni. Þannig að það er bara rangt að segja að það hafi orðið eldsvoði aftur og aftur.“


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira