Innlent

Hvetja fyrirtæki til þess að fara yfir niðurföll vegna olíulekans

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Þessi mynd var tekin í Grafarlæk síðastliðinn föstudag. Rósa Magnúsdóttir segir mun minni olíu í læknum í dag.
Þessi mynd var tekin í Grafarlæk síðastliðinn föstudag. Rósa Magnúsdóttir segir mun minni olíu í læknum í dag. vísir/andri marinó
Enn er olíumengun í Grafarlæk í Grafarvogi og illa gengur að rekja uppsprettu hennar. Áfram verður reynt að finna uppsprettu mengunarinnar en hún ógnar bæði útivistarsvæði og fuglalífi. Heilbrigðiseftirlitið hvetur fyrirtæki til þess að fara yfir niðurföll og athuga hvort ekki sé í lagi með olíuskiljur.

Rósa Magnúsdóttir, umhverfisstjóri Heilbrigðiseftirlitsins, segir útlit fyrir að minni olía sé nú í læknum en verið hefur. „Ég fór þangað í gærkvöldi og þá var þetta orðin smá slikja á læknum. Við eigum eftir að fara upp eftir í dag en þetta var skoðað allan daginn í gær,“ segir hún í samtali við Vísi.

Flókið að leita upprunans

Hún segir flókið að leita upprunans, því svæðið sé stórt og mörg fyrirtæki á svæðinu sem noti þar brunna. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur fundaði í gær með Veitum vegna málsins.

„Við leituðum til Veitna um aðstoð við að rekja okkur eftir kerfinu. Þetta er stórt, margir brunnar, og mjög flókið.“

Heilbrigðiseftirlitið óskaði í gær eftir liðsinni almennings við að vinna upptök olíulekans. Rósa segir að einhverjar ábendingar hafi borist en engin sem hafi leitt til niðurstöðu. Áfram verði fylgst gangi mála.


Tengdar fréttir

Olíumengun í öðrum læknum í Grafarvogi

Um er að ræða lækinn fyrir neðan Keldur en Rósa Magnúsdóttir, deildarstjóri umhverfiseftirlits hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, segir að þar hafi áður orðið vart við olíumengun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×