Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Fjölnir - Grindavík 4-0 | Úthvíldir Fjölnismenn rústuðu Grindvíkingum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Fjölnismenn fagna marki í kvöd.
Fjölnismenn fagna marki í kvöd. vísir/Andri Marinó

Fjölnir lyfti sér upp úr fallsæti með stórsigri á Grindavík, 4-0, í 11. umferð Pepsi-deildar karla í kvöld.

Þetta var fyrsti leikur Fjölnismanna í rúmar þrjár vikur og þeir virtust endurnærðir eftir fríið.

Leikurinn var ekki orðinn tveggja mínútna gamall þegar Linus Olsson kom Fjölni yfir í sínum fyrsta leik fyrir félagið.

Fjölnismenn voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og á 32. mínútu jók Gunnar Már Guðmundsson muninn í 2-0 með glæsilegu marki.

Strax í upphafi seinni hálfleiks skoraði Þórir Guðjónsson þriðja mark heimamanna og hann skoraði aftur á 66. mínútu.

Grindavík fékk nóg af færum í seinni hálfleik en tókst ekki að skora. Gestirnir fengu m.a. vítaspyrnu þegar 10 mínútur voru til leiksloka en Þórður Ingason varði frá Andra Rúnari Bjarnasyni, markahæsta leikmanni deildarinnar.

Þrátt fyrir tapið er Grindavík áfram í 2. sæti deildarinnar, þremur stigum á eftir toppliði Vals.

Af hverju vann Fjölnir?
Fjölnismenn mættu gríðarlega ákveðnir til leiks og skoruðu strax á 2. mínútu. Þeir leyfðu Grindvíkingum að vera með boltann aftast á vellinum en þegar honum var spilað inn á miðjunni settu heimamenn gestina undir stífa pressu. Grindvíkingar voru ótrúlega opnir til baka þegar þeir töpuðu boltanum og það nýttu Fjölnismenn sér.

Grafarvogspiltar fengu einnig draumabyrjun í seinni hálfleiknum og eftir það var róður Grindvíkinga þungur. Þeir fengu þó nóg af færum til að skora. Flest þeirra féllu Andra Rúnari í skaut en var þetta var ekki hans dagur.

Fjölnismenn fengu sömuleiðis helling af færum og hefðu getað skorað fleiri mörk.

Þessir stóðu upp úr:
Þórir Guðjónsson minnti á sig með tveimur mörkum og var líflegur. Félagi hans í framlínunni, Marcus Solberg, á líka hrós skilið en hann vann gríðarlega óeigingjarna vinnu og lagði upp fjórða markið fyrir Þóri.

Ægir Jarl Jónasson var frábær inni í miðjunni og Þórður átti sömuleiðis glansleik í marki Fjölnis sem þarf ekki að kvíða framhaldinu ef liðið spilar eins og það gerði í kvöld.

Hvað gekk illa?
Grindvíkingar fengu kjaftshögg í upphafi leiks og jöfnuðu sig aldrei á því. Sóknarleikur þeirra var bitlaus í fyrri hálfleik og varnarleikurinn afleitur. Gestirnir áttu sérstaklega erfitt með að verjast skyndisóknum heimamanna eins og áður sagði.

Andri Rúnar vill eflaust gleyma þessum leik sem fyrst en hann fór afar illa með færin sín. Aðrir lykilmenn eins og Alexander Veigar Þórarinsson náðu sér heldur ekki á strik.

Hvað gerist næst?
Fjölnir á gríðarlega mikilvægan leik gegn ÍBV á sunnudaginn. Eftir hann taka svo við útileikir gegn KR og Breiðabliki.

Grindvíkingar sækja Stjörnumenn heim á sunnudaginn. Þeir mæta svo Víkingsliðunum tveimur í næstu umferðum þar á eftir.

Einkunnir:

Fjölnir (4-4-2): Þórður Ingason 8 - Mies Junior Siers 6, Hans Viktor Guðmundsson 6, Torfi Tímoteus Gunnarsson 6, Mario Tadejevic 6 - Birnir Snær Ingason 6 (67. Igor Jugovic 6), Gunnar Már Guðmundsson 7 (84. Bojan Stefán Ljubicic -), Ægir Jarl Jónasson 8, Linus Olsson 6 (75.  Ingibergur Kort Sigurðsson -) - Marcus Solberg 7, Þórir Guðjónsson 8* (maður leiksins).

Grindavík (3-4-3): Kristijan Jajalo 5 - Björn Berg Bryde 4 (26. Brynjar Ásgeir Guðmundsson 4), Matthías Örn Friðriksson 4, Jón Ingason 4 - William Daniels 5 (58. Aron Freyr Róbertsson 4), Gunnar Þorsteinsson 5, Sam Hewson 5, Marinó Axel Helgason 4 - Milos Zeravica 4, Alexander Veigar Þórarinsson 4 (87. Nemanja Latinovic -), Andri Rúnar Bjarnason 4.

Mynd/Andri Marinó

Ágúst: Okkar langbesti leikur í sumar
Ágúst Gylfason, þjálfari Fjölnis, var að vonum kampakátur eftir sigurinn á Grindavík. Þetta var fyrsti leikur Fjölnis í rúmar þrjár vikur en hvernig nýttu Grafarvogspiltar þetta frí?

„Við hvíldum okkur vel og komum endurnærðir til baka. Þetta var svolítið eins og undirbúningstímabil. Við tókum aðeins í lóðin og mættum í Mjölni og áttum mjög góðar æfingar þar. Svo spiluðum við einn æfingaleik,“ sagði Ágúst.

„Þetta var langbesti leikur okkar í sumar. Við mættum til leiks og sýndum að við getum skorað mörk.“

Fyrir leikinn í kvöld sat Fjölnir á botni deildarinnar. Sigurinn var því gríðarlega mikilvægur.

„Sumarið er rétt að byrja, eigum við ekki að segja það? En það er frábært að fá þennan sigur og halda hreinu þótt Grindvíkingarnir hafi fengið einhver færi. Við fengum líka urmul færa,“ sagði Ágúst.

Linus Olsson spilaði sinn fyrsta leik fyrir Fjölni í kvöld og það tók hann aðeins tæpar tvær mínútur að skora sitt fyrsta mark fyrir félagið.

„Við fengum þennan strák til okkar því ég veit hvað hann getur. Þetta var mjög góð innkoma hjá honum. Hann ýtti við öllum hópnum og menn voru tilbúnir að berjast,“ sagði Ágúst.

En ætlar hann að fá fleiri leikmenn til Fjölnis á meðan félagaskiptaglugginn er opinn?

„Eigum við ekki að fagna þessum sigri. Við vinnum ekki á hverjum degi og hvað þá svona. Við erum sáttir í dag en sjáum svo til,“ sagði Ágúst að lokum.

Mynd/Andri Marinó

Óli Stefán: Tek þennan leik alfarið á mig
Óli Stefán Flóventsson, þjálfari Grindavíkur, dró hvergi undan eftir stórtap liðsins fyrir Fjölni í kvöld.

„Í dag vorum við í krummafót. Allt sem við reyndum gekk ekki. Á meðan voru Fjölnismenn hrikalega sprækir í dag. Svona dögum lendum við á og við þurfum bara að vinna úr þessu,“ sagði Óli Stefán eftir leik.

Grindavík fékk á sig mark í byrjun beggja hálfleika sem setti leikáætlun liðsins úr skorðum.

„Við lögðum upp með ákveðna hluti en leikáætlunin var strax í hættu. Við reyndum samt að halda í það. Svo gerðum við áherslubreytingar í hálfleik en fyrsta sóknin þeirra skilaði marki. Þá fórum við að taka áhættu og urðum ennþá opnari,“ sagði Óli Stefán.

Hann vill ekki meina að Grindvíkingar hafi ofmetnast eftir gott gengi í sumar.

„Alls ekki. Allir hópurinn og allt batteríið hefur verið í fullri vinnu við að halda báðum fótum á jörðinni. Við lendum bara í svona í fótbolta,“ sagði Óli Stefán.

„Þennan leik verð ég að taka á mig. Hann var ekki rétt upp settur hjá mér. Ég hef sjálfsagt ekki stillt þá nógu vel inn andlega og ég gerði bara of mörg mistök í vikunni. Ég tek þennan leik alfarið á mig.“

Félagaskiptaglugginn opnaði á laugardaginn og verður opinn fram að mánaðarmótum.

„Við erum að reyna skoða en þetta er mjög erfiður markaður og ekki margt laust. Við verðum bara að sjá til hvað gerist í þeim málum,“ sagði Óli Stefán.

Bein lýsing

Leikirnir
    Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.