Innlent

Segir að innganga Bretlands í EFTA myndi gerbreyta samtökunum

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Eiríkur segir að Bretland myndi taka alla forystu í EFTA ef það gengi inn í samtökin.
Eiríkur segir að Bretland myndi taka alla forystu í EFTA ef það gengi inn í samtökin. Mynd/Eyþór

Breska dagblaðið The Telegraph greindi frá því um helgina að Guðlaugur Þór Þórðarsson utanríkisráðherra hefur viðrað þá skoðun við breska kollega sinn, Boris Johnson, að Bretland gæti gengið í Fríverslunarsamtök Evrópu - EFTA eftir útgöngu sína úr Evrópusambandinu.

Guðlaugur telur að samtökin geti styrkt stöðu sínu á hinu hnattræna sviði ef að Bretland gengi í samtökin.

„Það er mín skoðun að Ísland gæti einnig nýtt sér þá fríverslunarsamninga sem Bretland mun semja um í náinni framtíð þar sem það er nokkuð augljóst að önnur ríki munu vilja landa viðskiptasamningi við Bretland verandi eitt af stærstu efnahagskerfum heims,“ segir Guðlaugur í samtali við The Telegraph. 

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra átti samtal við Boris Johnson utanríkisráðherra Bretlands um hugsanlega inngöngu Bretlands í EFTA. Vísir/Stefán

Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst, segir að tæknilega sé það mögulegt fyrir Bretland að ganga inn í EFTA en hinsvegar er ekki á dagskrá breskra stjórnvalda að sækja um aðild að innri markaði Evrópusambansins líkt og þrjú af fjórum EFTA ríkjum hafa í gegn um EES samninginn og Sviss í gegn um tvíhliða samning við ESB.

„Þetta gæti alveg verið raunhæft,“ segir hann. „Það fer samt alveg eftir því hver nálgunin væri. Það þarf auðvitað að hafa það í huga að það var Bretland sem hafði forystu um það að EFTA var stofnað árið 1960 og fékk hinar þjóðirnar með sér þangað inn. Þannig að þeir þekkja þá stofnun alveg ágætlega.“

Hann segir að þó svo að aðeins þrjú af fjórum EFTA ríkjum séu í EES hefur meginþunginn í starfsemi EFTA farið í að halda úti EES samningnum.

„Starfsemi EFTA hefur gengið út á að halda þessum tengslum gangandi,“ segir Eiríkur. „Bretar hafa hinsvegar lýst því yfir að þeir vilji alls ekki vera í innri markaðnum. Allavega fylgja því mjög stórir þættir sem þeir vilja ekki taka þátt í. Það myndi þá auðvitað breyta eðlisfræðinni í starfsemi EFTA ef að Bretar myndu koma þar inn og svo þarf auðvitað að huga að því að þeir myndu taka þar alla forystu í krafti stærðar sinnar samanborið við ríkin sem eru þar fyrir.“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira