Menning

Reykjavíkurdætur og Emmsjé Gauti koma fram á La Mercé

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Reykjavíkurdætur koma fram á La Mercé í haust en hér eru þær á Hróarskeldu í fyrra.
Reykjavíkurdætur koma fram á La Mercé í haust en hér eru þær á Hróarskeldu í fyrra. tom mckenzie
Rappsveitin Reykjavíkurdætur og rapparinn Emmsjé Gauti eru á meðal þeirra íslensku listamanna sem koma munu fram á borgarhátíðinni La Mercé sem fer fram í Barcelona í lok september en Reykjavík er gestaborg hátíðarinnar í ár.

Nöfn þeirra íslensku listamanna sem koma fram á hátíðinni í ár voru kynnt á sameiginlegum blaðamannafundi Dags. B. Eggertssonar, borgarstjóra, og Ödu Calou, borgarstjóra Barcelona í ráðhúsi Barcelona í morgun.

La Mercè er skipulögð af menningarskrifstofu Barselóna og fer fram dagana 22.–25. september. Hún er stærsta hátíð borgarinnar og á uppruna sinn að rekja til ársins 1871. Íslensku listamennirnir voru valdir til þátttöku af skipuleggjendum hátíðarinnar í samráði við Útón og Menningar- og ferðamálasvið Reykjavíkur en þeir flytjendur sem kom fram fyrir hönd Íslands eru eftirfarandi listamenn:

Samaris, Kiasmos, Glowie, Emmsjé Gauti, Ólöf Arnalds, Grísalappalísa, Reykjavíkurdætur, JFDR, Guðrún Ólafsdóttir, Milkywhale, Halldór Mar, Ingvar Björn, Sigríður Soffía Níelsdóttir og sýningin Full Dome Show.

 

Auk þessa verða sýndar fjórar myndir, heimildarmynd Péturs Einarssonar um hrunið, Hross í oss, mynd Benedikts Erlingssonar, tónlistarmyndin Bakgarðurinn eftir Árna Sveinsson og að lokum myndin Boken eftir Geoffrey Orthwein and Andrew Sullivan sem er vísindaskáldskapur um amerískt par sem ferðast til Íslands.

Hátíðin er árlegur viðburður. Menning og listir verða í fyrirrúmi og fjöldi listamanna koma að dagskránni þar sem kennir ýmissa grasa.  Borgin fyllist af tónlist, dans og götulist. Umgjörðin eru sögufrægir staðir í Barselóna auk þess sem hátíðin teygir anga sín út í hin ýmsu hverfi með þátttöku borgarbúa og gesta.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×