Fótbolti

„Við virðum íslenska liðið“

Tómas Þór Þórðarson í Tilburg skrifar
Olivier Echouafni, þjálfari Frakklands, og miðvörðurinn Wendie Renard.
Olivier Echouafni, þjálfari Frakklands, og miðvörðurinn Wendie Renard. vísir/vilhelm

Það var ekki beint sprengjum varpað á blaðamannafundi franska landsliðsins í Tilburg í dag þar sem Olivier Echouafni, þjálfari Frakklands, og miðvörðurinn Wendie Renard, leikmaður Lyon, sátu fyrir svörum.

Franska liðið er eitt það líklegasta til að vinna mótið en það er stjörnum prýtt. Það hefur aftur á móti átt erfitt með að komast í úrslitaleikinn á EM.

„Við erum meðvituð um að við höfum dottið út of snemma í síðustu mótum. Það verður erfitt að vinna þetta mót en við munum gera okkar besta. Það fyrsta sem við þurfum að gera er að vinna litlu úrslitaleikina í riðlinum á móti Íslandi, Sviss og Austuríki,“ sagði Renard.

„Hugarfarið verður að vera gott hjá okkur. Ég veit ekki hvort við erum sigurstranglegri en Þýskaland. Það er sigurstranglegasta liðið enda vinnur það alltaf. Við viljum bara standa okkur sem best,“ bætti þjálfarinn við.

Frakkland er mun sigurstranglegra en Ísland á morgun. Echouafni segir að sínar stúlkur munu þó ekki vanmeta íslenska liðið sem hann talaði vel um.

„Við virðum íslenska liðið. Það spilaði vel í undankeppninni þar sem það endaði fyrir ofan Skotland í sínum riðli. Við búumst við líkamlega sterku liði sem hleypur mikið. Ísland býr líka yfir mikilli reynslu og er með góða leikmenn sem spila fyrir góð lið. Ég vil að mitt lið berjist á móti Íslandi á morgun,“ sagði Oliver Echouafni.

Þjálfarinn nefndi svo tvo leikmenn á nafn, önnur þeirra var líklega Hólmfríður Magnúsdóttir, þegar hann var að tala um reynsluna í íslenska liðinu en fjölmiðlafulltrúi Frakklands sleppti bara að þýða þann part af svarinu hjá Echouafni.

Ekki missa af neinu tengdu stelpunum okkar á EM 2017 í Hollandi. Íþróttadeild 365 er með öflugt teymi fréttamanna á mótinu og færir ykkur allar nýjustu fréttirnar af íslenska liðinu. Fylgdu okkur á FacebookTwitter og Snapchat (sport365).


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira