Innlent

Lögreglan varar enn við vingjarnlegum sölumönnum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Í tilkynningu frá lögreglu segir að fyrr í dag hafi maður leitað til lögreglu og sagt farir sínar ekki sléttar eftir viðskipti við tvo erlenda menn sem seldu honum nokkra jakka.
Í tilkynningu frá lögreglu segir að fyrr í dag hafi maður leitað til lögreglu og sagt farir sínar ekki sléttar eftir viðskipti við tvo erlenda menn sem seldu honum nokkra jakka. Vísir/Eyþór

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu ítrekar varnaðarorð sín til þeirra sem íhuga að eiga viðskipti við vingjarnlega, erlenda sölumenn sem bjóða vandaðan fatnað til sölu á mjög hagstæðu verði, en grunur leikur á að varningurinn sé ekki í þeim gæðaflokki sem fullyrt er. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni.

Þar segir að fyrr í dag hafi maður leitað til lögreglu og sagt farir sínar ekki sléttar eftir viðskipti við tvo erlenda menn sem seldu honum nokkra jakka eftir að hafa fyrst tekið hann tali á bílastæði við banka í austurborginni.

„Grunur leikur á að flíkurnar sem maðurinn keypti séu ekki í þeim gæðaflokki sem um var talað. Sölumennirnir eru sjálfir jakkafataklæddir og koma vel fyrir og virðast eiga auðvelt með að blekkja fólk, en málið frá því fyrr í dag er ekki það eina sem hefur ratað á borð lögreglu. Ef fólk sér til umræddra sölumanna, sem sagðir eru vera á ljósgrárri bifreið, er það beðið um láta lögreglu vita,“ segir í tilkynningu lögreglu.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira