Innlent

Lögreglan varar enn við vingjarnlegum sölumönnum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Í tilkynningu frá lögreglu segir að fyrr í dag hafi maður leitað til lögreglu og sagt farir sínar ekki sléttar eftir viðskipti við tvo erlenda menn sem seldu honum nokkra jakka.
Í tilkynningu frá lögreglu segir að fyrr í dag hafi maður leitað til lögreglu og sagt farir sínar ekki sléttar eftir viðskipti við tvo erlenda menn sem seldu honum nokkra jakka. Vísir/Eyþór
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu ítrekar varnaðarorð sín til þeirra sem íhuga að eiga viðskipti við vingjarnlega, erlenda sölumenn sem bjóða vandaðan fatnað til sölu á mjög hagstæðu verði, en grunur leikur á að varningurinn sé ekki í þeim gæðaflokki sem fullyrt er. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni.

Þar segir að fyrr í dag hafi maður leitað til lögreglu og sagt farir sínar ekki sléttar eftir viðskipti við tvo erlenda menn sem seldu honum nokkra jakka eftir að hafa fyrst tekið hann tali á bílastæði við banka í austurborginni.

„Grunur leikur á að flíkurnar sem maðurinn keypti séu ekki í þeim gæðaflokki sem um var talað. Sölumennirnir eru sjálfir jakkafataklæddir og koma vel fyrir og virðast eiga auðvelt með að blekkja fólk, en málið frá því fyrr í dag er ekki það eina sem hefur ratað á borð lögreglu. Ef fólk sér til umræddra sölumanna, sem sagðir eru vera á ljósgrárri bifreið, er það beðið um láta lögreglu vita,“ segir í tilkynningu lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×