Innlent

Veðurstofan varar við mikilli rigningu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Eins og sjá má á þessu veðurkorti er spáð mikilli rigningu sunnan-og vestanlands á morgun.
Eins og sjá má á þessu veðurkorti er spáð mikilli rigningu sunnan-og vestanlands á morgun. veðurstofa íslands

Veðurstofan hefur sent frá sér tilkynningu vegna mikillar rigningar sem spáð er um landið sunnan-og suðaustanvert eftir hádegi á morgun, þriðjudaginn 18. júlí og fram á miðvikudag 19. júlí.

Í tilkynningunni segir að búast megi við mestri úrkomu í kringum fjöll og jökla á þessum svæðum og er varað við vexti í ám og lækjum í kringum Eyjafjalla- og Mýrdalsjökul og við sunnanverðan Vatnajökul. Ferðamenn eru beðnir um að hafa varan á í kringum ár og læki á svæðinu.

Veðurhorfur næstu daga eru þessar:

Suðvestlæg átt, 5-10 m/s og smáskúrir, en léttskýjað um landið austanvert. Vaxandi suðaustanátt með rigningu í fyrramálið, 10-23 m/s upp úr hádegi, hvassast við suðvesturströndina.

Talsverð og sums staðar mikil rigning um tíma sunnanlands, en þurrt um landið norðaustanvert. Snýst í mun hægari suðlæga átt með skúrum fyrst suðvestantil annað kvöld. Hiti 10 til 18 stig í dag, hlýjast austanlands, en hiti að 20 stigum norðaustantil á morgun.

Á miðvikudag:
Suðaustan 13-18 m/s um landið suðaustanvert og rigning, en talsvert hægari og úrkomulítið norðan- og norðvestantil. Hiti 8 til 20 stig, hlýjast norðanlands.

Á fimmtudag:
Austlæg átt 5-10 m/s og rigning með köflum suðaustanlands, en þurrt og bjart að mestu vestantil á landinu. Áfram fremur hlýtt í veðri.

Á föstudag og laugardag:
Norðaustlæg átt 5-10 m/s og léttir víða til. Hiti að 20 stigum í innsvetum um landið vestanvert, en skýjað og mun svalara við norðausturströndina.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira