Fótbolti

Íslendingar verða í miklum meirihluta í stúkunni á morgun

Kolbeinn Tumi Daðason í Tilburg skrifar
Guðrún Inga Sívertsen, varaformaður KSÍ, á von á hátt í þrjú þúsund Íslendingum á leikinn gegn Frökkum á morgun.
Guðrún Inga Sívertsen, varaformaður KSÍ, á von á hátt í þrjú þúsund Íslendingum á leikinn gegn Frökkum á morgun. Vísir
Allt bendir til þess að Íslendingar verði í meirihluta í stúkunni í Tilburg á morgun þar sem stelpurnar okkar mæta Frökkum í fyrsta leik sínum á Evrópumótinu í knattspyrnu.

Um 4700 miðar hafa verið seldir á leikinn á morgun en það eru fleiri áhorfendur en voru á öllum þremur leikjum Íslands í riðlakeppninni á EM í Svíþjóð fyrir fjórum árum.

Guðrún Inga Sívertsen, varaformaður KSÍ, var á undirbúningsfundi fyrir leikinn á keppnisleikvanginum í Tilburg í dag.

„Við eigum von á hátt í þrjú þúsund Íslendingum á leikinn á morgun,“ segir Guðrún Inga í samtali við fréttastofu.

„Þannig að við munum eiga stúkuna á morgun. Hún verður bara blá,“ segir varaformaðurinn en hitað verður upp fyrir leikinn á morgun á sérstöku fan-zone-i þar sem íslenskir listamann koma fram. Svæðið verður opið frá klukkan 13 og fram að leik en klukkan 17:30 byrja íslenskir listamann að troða upp. Glowie, Amabadama og Emmsjé Gauti.

„Svo verður skrúðganga hingað upp á völl. Það verður mikið  þetta verður mikill gleðidagur.“

Varaformaðurinn á von á íslenskum sigri.

„Að sjálfsögðu. Við erum hér til að gera okkar allra besta og vonandi fáum við einhver stig á morgun.“

Ekki missa af neinu tengdu stelpunum okkar á EM 2017 í Hollandi. Íþróttadeild 365 er með öflugt teymi fréttamanna á mótinu og færir ykkur allar nýjustu fréttirnar af íslenska liðinu. Fylgdu okkur á FacebookTwitter og Snapchat (sport365).






Fleiri fréttir

Sjá meira


×