Fótbolti

Sænsku stelpurnar enduðu ellefu leikja taphrinu á móti Þýskalandi í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Babett Peter og Stina Blackstenius í baráttunni í leiknum í kvöld.
Babett Peter og Stina Blackstenius í baráttunni í leiknum í kvöld. Vísir/Getty

Svíþjóð og Þýskaland gerðu markalaust jafntefli í kvöld í seinni leik dagsins á Evrópumóti kvenna í fótbolta en þetta var fyrsti leikur liðanna í B-riðli keppninnar í Hollandi.

Báðar þjóðir ætla sér stóra hluti á mótinu og það var ekkert gefið eftir í leiknum í kvöld. Leikurinn bauð upp á nokkur færi en hvorugu liðinu tókst að koma boltanum í netið.

Linda Sembrant komst næst því að skora fyrir Svía en hún átti skallafæri í báðum hálfleikjum. Mandy Islacker komst næst því að skora fyrir þýska liðið.

Þýska liðið hefur sett stefnuna á það að vinna sjöunda Evrópumeistaratitilinn í röð en þýsku stelpurnar hafa unnið allar Evrópukeppnir kvenna frá og með árinu 1995.

Þrátt fyrir að sænska liðið hafi ekki náð að vinna leikinn í kvöld var þetta langþráð stig á móti þýska risanum.

Þýskaland hafði nefnilega unnið allar ellefu viðureignir þjóðanna á stórmótum þar á meðal í undanúrslitum EM fyrir fjórum árum og í úrslitaleik Ólympíuleikanna í Ríó í fyrra.

Eftir þessi úrslit eru Rússar á toppi riðilsins með þrjú stig eftir óvæntan 2-1 sigur á Ítalíu fyrr í dag.

Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira