Erlent

Yfirvöld Sádi Arabíu rannsaka myndband af konu í stuttu pilsi

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Konan sést ganga um sögufrægt virki í bænum Ushayqir en myndbandið vakti hörð viðbrögð á samfélagsmiðlum.
Konan sést ganga um sögufrægt virki í bænum Ushayqir en myndbandið vakti hörð viðbrögð á samfélagsmiðlum. Skjáskot/Twitter
Yfirvöld í Sádi Arabíu rannsaka nú unga konu sem setti myndband af sér, íklæddri stuttu pilsi og stuttermabol, á samfélagsmiðla. Konan klæðist fatnaðinum á almannafæri en slíkt er bannað í Sádi Arabíu.

Konan, sem fréttastofa Breska ríkisútvarpsins segir vera fyrirsætu að nafni „Khulood,“ deildi myndbandinu sjálf. Hún sést ganga um sögufrægt virki í bænum Ushayqir í Sádi Arabíu, töluvert fáklæddari en tíðkast þar í landi.

Myndbandið vakti hörð viðbrögð á samfélagsmiðlum en einhverjir kölluðu eftir því að konan yrði handtekin fyrir að brjóta íhaldssamar reglur landsins um klæðnað kvenna. Aðrir komu þó konunni til varnar og lofuðu „hugrekki“ hennar.

Konum í Sádi Arabíu er skylt að klæðast víðum, skósíðum klæðnaði, svokölluðum „abaya,“ er þær fara út á meðal fólks. Þá verða þær einnig að hylja hár sitt auk þess sem þeim er óheimilt að aka bíl.

Hér að neðan má sjá myndbandið sem Khulood deildi fyrst á Snapchat-reikningi sínum nú um helgina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×