Íslenski boltinn

Willum Þór Þórsson: Hver leikur er bara bardagi

Árni Jóhannsson skrifar
Willum Þór Þórsson, þjálfari KR.
Willum Þór Þórsson, þjálfari KR. Vísir/Eyþór

Willum Þór Þórsson, þjálfari KR, fannst sitt lið eiga meira skilið í kvöld en KR tapaði þá 2-0 á móti Stjörnunni í Garðabæ. Eftir leikinn er KR-liðsins í tíunda sæti Pepsi-deildarinnar.

„Mér fannst við geta fengið eitthvað út úr þessum leik, sérstaklega eins og fyrri hálfleikur spilaðist. Jöfn staða í hálfleik hefði gefið allt öðruvísi leik í þeim seinni“, voru fyrstu viðbrögð þjálfara KR eftir tap á móti Stjörnunni.

„Við þurftum aðeins að opna okkur í seinni hálfleik en mér fannst við alltaf eiga möguleika á að jafna. Það var óþarfi að vera undir í hálfleik, það fór svolítið illa með okkur en það vantaði augljóslega smá bensín á tankinn. Við erum ekkert að gráta það að spila fótboltaleiki en Stjörnuliðið vann mjög vel úr þessari stöðu að ná 1-0 forystu. Þetta var jafn hálfleikur og þegar við þurfum að opna okkur aðeins nýta þeir sér það og koma öðru marki á okkur og sigla þessu heim“.

Willum nefndi að bensín vantaði á tankinn og var hann beðinn um að ræða það aðeins nánar.

„Auðvitað vill maður ekki vera að tala um það að ferðalög í leiki sitji í mönnum, við erum í toppstandi og viljum spila fótboltaleiki. Leikurinn úti var samt bæði erfiður þar sem það var mikill hiti og mikill raki og síðan tók við 24 klukkustunda ferðalag. Auðvitað situr það í mönnum en það er engin afsökun þar sem við erum með menn í toppstandi. Við þurftum ekki á þessu marki að halda í fyrri hálfleik, jöfn stað í hálfleik hefði gert það að verkum að við hefðum haldið skipulagi betur og haldið þessum leik í járnum á erfiðum útivelli“.

Willum var beðinn um að gera upp fyrri umferð mótsins en sem stendur er KR í 10. sæti og í bullandi fallbaráttu.

„Nei nei ég er bara engan vegin sáttur en það þýðir ekkert að vera að gráta það sem búið er. Við þurfum bara að halda áfram og berjast fyrir hverju einasta stigi, þessi deild er bara þannig og ef við ekki áttum okkur á því þá er ekkert víst að við söfnum fleiri stigum í seinni umferðinni en við gerðum í þeirri fyrri. Hver leikur er bara bardagi“.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira