Erlent

Níu fjölskyldumeðlimir létust í leifturflóði

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Leifturflóðið varð í þjóðgarðinum Tonto National Forest norðan við Phoenix, höfuðborg Arizona-fylkis.
Leifturflóðið varð í þjóðgarðinum Tonto National Forest norðan við Phoenix, höfuðborg Arizona-fylkis. SKjáskot/Google Maps

Níu meðlimir sömu fjölskyldu, sem allir höfðu stungið sér til sunds í hyl í Arizona-fylki, létust eftir að gríðarlegt magn af vatni flæddi út í hylinn. Fimm hinna látnu voru börn. AP-fréttaveita greinir frá.

Að minnsta kosti fjörutíu manns vinna nú að björgunaraðgerðum á svæðinu en 27 ára karlmaður, sem einnig tilheyrir umræddri fjölskyldu, er enn týndur eftir leifturflóðið. Eiginkona hans lést í flóðinu en systir mannsins bindur vonir við að hann finnist.

Yfir hundrað manns voru á svæðinu, ýmist til þess að synda eða flatmaga við bakka hylsins, þegar moldarblandað flóðið skall á viðstadda. Björgunarsveitir og yfirvöld hafa borið kennsl á níu látna í kjölfar hamfaranna en einhverjir þeirra fundust í rúmlega þriggja kílómetra fjarlægð frá hylnum. Fimm börn á aldrinum 2-13 ára voru á meðal þeirra látnu.  

Fjórir fjölskyldumeðlimanna, ein hjón og tvö börn þeirra, voru flutt með þyrlu á sjúkrahús vegna ofkælingar en leifturflóðið varð í Tonto-skógi í grennd við Phoenix, höfuðborg Arizona-fylkis.

„Ég hef unnið hjá lögreglunni í þrettán ár og þetta er alvarlegasta flóðatilfelli sem við höfum nokkurn tímann orðið vitni að,“ sagði David Hornung, lögreglumaður á svæðinu.
Fleiri fréttir

Sjá meira