Erlent

Níu fjölskyldumeðlimir létust í leifturflóði

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Leifturflóðið varð í þjóðgarðinum Tonto National Forest norðan við Phoenix, höfuðborg Arizona-fylkis.
Leifturflóðið varð í þjóðgarðinum Tonto National Forest norðan við Phoenix, höfuðborg Arizona-fylkis. SKjáskot/Google Maps

Níu meðlimir sömu fjölskyldu, sem allir höfðu stungið sér til sunds í hyl í Arizona-fylki, létust eftir að gríðarlegt magn af vatni flæddi út í hylinn. Fimm hinna látnu voru börn. AP-fréttaveita greinir frá.

Að minnsta kosti fjörutíu manns vinna nú að björgunaraðgerðum á svæðinu en 27 ára karlmaður, sem einnig tilheyrir umræddri fjölskyldu, er enn týndur eftir leifturflóðið. Eiginkona hans lést í flóðinu en systir mannsins bindur vonir við að hann finnist.

Yfir hundrað manns voru á svæðinu, ýmist til þess að synda eða flatmaga við bakka hylsins, þegar moldarblandað flóðið skall á viðstadda. Björgunarsveitir og yfirvöld hafa borið kennsl á níu látna í kjölfar hamfaranna en einhverjir þeirra fundust í rúmlega þriggja kílómetra fjarlægð frá hylnum. Fimm börn á aldrinum 2-13 ára voru á meðal þeirra látnu.  

Fjórir fjölskyldumeðlimanna, ein hjón og tvö börn þeirra, voru flutt með þyrlu á sjúkrahús vegna ofkælingar en leifturflóðið varð í Tonto-skógi í grennd við Phoenix, höfuðborg Arizona-fylkis.

„Ég hef unnið hjá lögreglunni í þrettán ár og þetta er alvarlegasta flóðatilfelli sem við höfum nokkurn tímann orðið vitni að,“ sagði David Hornung, lögreglumaður á svæðinu.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira