Íslenski boltinn

UEFA með grein um Vestmannaeyjar: Fullkomið dæmi um að stærðin skiptir ekki máli

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Það er jafnan mikið líf í Vestmannaeyjum á sumrin.
Það er jafnan mikið líf í Vestmannaeyjum á sumrin. vísir/pjetur
Í dag birtst vegleg grein á heimasíðu UEFA um Vestmannaeyjar og yngri flokka mótin sem fara þar fram á hverju sumri; Orkumótið, fyrir 6. flokk karla, og TM-mótið, fyrir 5. flokka kvenna.

Í greininni er fjallað ítarlega um Eyjamótin og rætt við landsliðsfólkið Jón Daða Böðvarsson og Margréti Láru Viðarsdóttur.

„EM 2016 var stærsta mótið sem ég hafði spilað á frá mótinu í Eyjum þegar ég var aðeins 10 ára gamall,“ segir Jón Daði.

Orkumótið fór fram í 34. sinn í síðasta mánuði þar sem í kringum 1000 drengir alls staðar að af landinu tóku þátt. Landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson mætti til Eyja og afhenti sigurlaunin. Þá var forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, einnig í Eyjum þar sem hann fylgdist með syni sínum.

TM-mótið fór fram í 28. sinn í sumar. Um 800 stelpur frá 26 félögum tóku þátt en í greininni er sagt að það sé til marks hversu vinsæll og langt kvennafótboltinn á Íslandi sé kominn.

„KSÍ er að vinna frábært starf í að rækta grasrótina í fótbolta. Sambandið er mjög metnaðarfullt og allar aðstæður og öll þjálfun er góð,“ segir Eyjakonan Margrét Lára.

Í niðurlagi greinarinnar segir að: „Vestmannaeyjar séu fullkomið dæmi um að stærðin skipti ekki máli. Þrátt fyrir að aðeins nokkur þúsund manns búi þar hefur þessi litla eyja gefið Íslandi svo mikið. Nokkrir af bestu fótboltamönnum eru þaðan og með svona sterka grasrót og umgjörð kæmi það á óvart að fleiri fylgdu ekki í kjölfarið.“

Greinina í heild sinni má lesa með því að smella hér.

Rætt er við Margréti Láru í grein UEFA.vísir/anton



Fleiri fréttir

Sjá meira


×