Enski boltinn

Hart leikur með West Ham á næsta tímabili

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hart hefur verið aðalmarkvörður enska landsliðsins frá árinu 2010.
Hart hefur verið aðalmarkvörður enska landsliðsins frá árinu 2010. vísir/getty
Enski landsliðsmarkvörðurinn Joe Hart er genginn í raðir West Ham á láni frá Manchester City. Lánssamningurinn gildir út næsta tímabil.

Hart gæti mætt sínum gömlu félögum á Laugardalsvellinum 4. ágúst en þá mætast West Ham og City í síðasta æfingaleik sínum áður en tímabilið í ensku úrvalsdeildinni hefst.

Hart varð tvisvar sinnum Englandsmeistari með City en Pep Guardiola taldi sig ekki hafa not fyrir hann á síðasta tímabili og lánaði hann til Torino á Ítalíu.

Hart, sem er þrítugur, kom City frá Shrewsbury Town 2006. Eftir vel heppnaða dvöl hjá Birmingham City tímabilið 2009-10 var Hart gerður að aðalmarkverði City. Sama ár varð hann aðalmarkvörður enska landsliðsins. Hart hefur leikið 71 landsleik fyrir England.

West Ham endaði í 11. sæti ensku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×