Handbolti

Nýi KA-maðurinn í aðalhlutverki í sigri Færeyinga í fyrsta leik sínum á HM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
21 árs landsliðsstrákar Færeyja.
21 árs landsliðsstrákar Færeyja. Mynd/Hondbóltssamband Føroya
Færeyingar byrja vel á HM 21 árs landsliða í handbolta sem hófst í dag í Alsír. Þetta er í fyrsta sinn sem færeyskt handboltalandslið kemst í úrslitakeppni HM og þessi sögulegi dagur endaði afar vel .

Færeyska liðið vann nefnilega þriggja marka sigur á Síle, 31-28, eftir  að hafa verið 14-12 yfir í hálfleik.  Þýskaland og Noregur unnu líka fyrsta leik sinn í riðlinum en fjórar efstu þjóðirnar komast áfram í sextán liða úrslit.

Áki Egilsnes, örvhent skytta sem samdi við KA á dögunum, fór fyrir sínu liði í þessum leik á móti Síle. Áki skoraði var næstmarkahæstur með fjögur mörk og gaf flestar stoðsendingar eða fjórar.

Kjartan Johansen var markahæstur með fimm mörk en þrjú marka hans komu af vítalínunni. Áki Egilsnes skoraði fjögur mörk eins og Jónas Gunnarsson Djurhuus.

Annars dreifðist markaskorið vel hjá færeyska liðinu í þessum leik en átta leikmenn liðsins skoruðu á bilinu þrjú til fimm mörk.

Áki Egilsnes nýtti fjögur af níu skotum sínum en þrjú marka hans komu úr horninu samkvæmt opinberri tölfræði mótsins. Hann spilaði næstum því allan leikinn eða allt nema 52 sekúndur. Hér má sjá tölfræði leiksins.

Næsti leikur færeyska liðsins er á móti Suður-Kóreu á fimmtudaginn. Kóreumenn töpuðu 31-29 fyrir Noregi í dag.

Íslenska landsliðið hefur einnig leik á heimsmeistaramótinu í dag en fyrstu leikur liðsins er á móti Argentínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×