Fastir pennar

Ekki spyrja tvístígandi hagfræðing um íslensku krónuna

Lars Christensen skrifar
Hagfræðingur þarf ekki að eyða mörgum mínútum með hvaða Íslendingi sem er áður en hann er spurður um styrk íslensku krónunnar og hvort krónan muni halda áfram að styrkjast eða hvort hún muni brotlenda.

Og það er þá sem hagfræðingurinn verður versti hagfræðingurinn, „annars vegar og hins vegar“-hagfræðingur sem heldur því fram að gjaldmiðillinn geti farið í hvora áttina sem er.

Þetta er engu að síður tilfellið ef við þurfum að gera alvarlega greiningu á horfunum fyrir íslensku krónuna.

Hagfræðingar hugsa oft um „sannvirði“ eða „grunnvirði“ í tengslum við það sem hagfræðingar kalla jafnvirðisgengi (PPP). Samkvæmt kenningunni um jafnvirðisgengi ætti verðgildi gjaldmiðilsins að endurspegla vöruverð á Íslandi samanborið við verð sömu vara annars staðar í heiminum. Þetta hefur verið gert vinsælt með svokallaðri Big Mac-vísitölu þar sem sagt er að verðið á Bic Mac á Íslandi (að því gefnu að hægt sé að fá Big Mac á Íslandi) ætti að vera það sama og verðið á Big Mac í Kaupmannahöfn eða Berlín mælt í sama gjaldmiðli.

Almennari leið til að líta á þetta er að skoða svokallað vegið raungengi (REER) sem mælir verðgildi krónunnar gagnvart gjaldmiðlum helstu viðskiptalanda Íslands og leiðrétta það eftir hlutfallsverði. Til að jafnvirðisgengis-kenningin haldi ætti vegið raungengi með tímanum alltaf að stefna að stöðugu stigi. Og það hefur einmitt verið tilfellið ef við lítum á verðgildi krónunnar yfir áratugi, en ekki frá ári til árs.

Ef við lítum á vegið raungengi fyrir Ísland á þessari stundu er krónan allt að 15-20 prósent ofmetin borið saman við sögulegt meðaltal fyrir krónuna.

Þýðir það að gengi krónunnar muni fljótlega falla? Nei, það er alls ekki gefið. Í fyrsta lagi getur raunvirði krónunnar aðlagast annaðhvort með falli á nafnvirði krónunnar eða með því að verðbólga sé lægri á Íslandi en í helstu viðskiptalöndum Íslands í langan tíma. Í öðru lagi, og það sem meira máli skiptir, verður krónan að vera ofmetin til að halda aftur af verðbólguþrýstingi vegna hinnar miklu aukningar á innlendri eftirspurn sem við höfum séð undanfarin ár.

Með öðrum orðum hefur Seðlabankinn þurft að halda stýrivöxtum hærri en annars hefði verið tilfellið til að tryggja að verðbólgan fari ekki upp fyrir 2,5 prósenta verðbólgu­markmiðið til meðallangs tíma.

Það er út af þessu sem við erum á milli steins og sleggju varðandi krónuna. Mikil eftirspurn innanlands hefur neytt Seðlabankann til að halda stýrivöxtum tiltölulega háum (samanborið við annars staðar í heiminum) og þetta skýrir að hluta til af hverju krónan sætir nú óþarflega mikilli aðhaldsstefnu.

Hins vegar, ef neikvæður hnykkur yrði í íslenska hagkerfinu – til dæmis fækkun ferðamanna – þá gætu hlutirnir snarbreyst og krónan gæti veikst verulega. En þetta er ekki spádómur – þetta er uppstilling tvístígandi hagfræðings.

Greinin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál.






×