Lífið

Birtu nektarmyndir með fréttum af fyrsta kvenkyns Doktornum

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Jodie Whittaker er fyrsta konan sem fer með hlutverk Doktorsins í þáttunum Doctor Who.
Jodie Whittaker er fyrsta konan sem fer með hlutverk Doktorsins í þáttunum Doctor Who. BBC
Bresku miðlarnir The Sun og Mail Online sæta nú harðri gagnrýni eftir að þeir birtu nektarmyndir af leikkonunni Jodie Whittaker með fréttum af því að hún taki við hlutverki Doktorsins í bresku þáttunum Doctor Who.

Breska ríkissjónvarpið tilkynnti á sunnudaginn að Whittaker tæki fyrst kvenna við sögufrægu hlutverki Doktorsins. Báðir miðlarnir fóru yfir fyrri hlutverk Whittaker þar sem hún hefur komið nakin fram og birtu með fréttunum skjáskot af téðum nektaratriðum.

Samtök leikkvenna um jafnrétti (Equal Representation for Actresses, ERA) segjast vonsvikin með umfjöllun miðlanna um Whittaker.

„Við erum himinlifandi með hlutverk Jodie Whittaker sem þrettándi Doktorinn. Við erum hins vegar undrandi og vonsvikin með smættandi og óábyrga ákvörðun Daily Mail og Sun að birta greinar þar sem Jodie er sýnd í nektarsenum,“ segir í tilkynningu frá samtökunum.

„Ögrandi fortíð“

Fyrirsögn Mail Online var „Doctor Nude!“ eða Doktor nakinn og í henni var einnig að finna myndir af karlmönnum sem hafa farið með hlutverk Doktorsins berum að ofan. Í umfjöllun The Sun var talað um „ögrandi fortíð“ Whittaker á skjánum.

The Sun birti aðra aðskilda grein þar sem Whittaker var tilkynnt í hlutverkið á forsíðu sinni. Myndirnar birtust ekki í blaðinu Daily Mail, heldur einungis á vefnum.

Þetta er, sem fyrr segir, í fyrsta sinn sem kona fer með hlutverk Doktorsins. Þættirnir Doctor Who hafa verið sýndir á BBC með hléum frá árinu 1963.

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, er meðal þeirra sem hafa tekið fréttunum fagnandi, en samkvæmt talsmanni hennar reynir ráðherrann alltaf að horfa á jólaþáttinn af Doctor Who, sem hefð er fyrir að séu sýndir á Jóladag.

Hér fyrir neðan má sjá myndbandið þar sem tilkynnt var um hinn nýja Doktor.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×