Enski boltinn

Vonar að Víkingaklappið fylgi sér ekki til nýja félagsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Daði Böðvarsson að taka Víkingaklappið á síðustu leiktíð.
Jón Daði Böðvarsson að taka Víkingaklappið á síðustu leiktíð. Vísir/Getty
Selfyssingurinn Jón Daði Böðvarsson er kominn í nýtt félag í enska boltanum eftir að Reading keypti íslenska landsliðsframherjann frá Wolves á dögunum.

Jón Daði byrjaði vel með Úlfunum í framhaldi af Evrópumótinu í Frakklandi því hann skoraði í sínum fyrsta leik með Wolves á síðasta tímabili.

Stuðningsmenn enska liðsins fengu Jón Daða til að taka Víkingaklappið eftir leikinn en það var ennþá sjóðandi heitt eftir frammistöðu Íslands á EM í Frakklandi.

Víkingaklappið fylgdi íslenska landsliðsframherjanum áfram út tímabilið en Jón Daði stjórnaði nefnilega klappinu eftir marga sigurleiki Úlfanna á leiktíðinni.

Í viðtali við fótbolta.net var Jón Daði spurður að því hvort að Víkingaklappið fylgi með í kaupunum og hvort stuðningsmenn Reading eigi  núna von á því að taka saman nokkur „húh“  á komandi tímabili.  

„Ég vona ekki, eins mikið og mér þykir vænt um þetta klapp. EM er búið og þetta er liðin tíð. Á maður ekki bara að gera þetta með landsliðinu? Ég vil ekki gera meira af því með félagsliði,“ sagði Jón Daði í viðtalinu við fótbolta.net.

Jón Daði útilokar þó ekki að taka klappið ef þrýstingurinn verður mikill frá stuðningsmönnum Reading. Það má því búast við því að hann verði píndur að skella sér fyrir framan liðsfélagana og stjórna einu Víkingaklappi eftir einhvern sigurleikinn á komandi vetri.

Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×