Erlent

Hyggjast gera fóstureyðingar löglegar í undantekningartilfellum

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Konur söfnuðust saman við mótmæli í Chile í fyrra og kröfðust aðgengis að öruggum og löglegum fóstureyðingum.
Konur söfnuðust saman við mótmæli í Chile í fyrra og kröfðust aðgengis að öruggum og löglegum fóstureyðingum. Vísir/epa
Frumvarp, sem gerir fóstureyðingar löglegar í ákveðnum tilfellum, hefur verið samþykkt af tæpum meirihluta á þinginu í Chile. Lögleiðingin telst stór sigur fyrir flokk forsetans, Michelle Bachelet, og samtök sem barist hafa fyrir aðgengi kvenna að fóstureyðingum.

Tæpur meirihluti þingsins kaus með lögleiðingu fóstureyðinga eftir langar og strangar umræður sem stóðu yfir næturlangt. Fóstureyðingar verða nú löglegar í þremur undantekningartilfellum, þegar líf konu er í hættu vegna þungunar, þegar fóstri er ekki hugað líf og þegar þungun verður í kjölfar nauðgunar.

Fóstureyðingar eru enn bannaðar með öllu í Chile en banninu var komið á þegar einræðisherrann Augusto Pinochet fór með völd í landinu árin 1973-1990.

Sögulegur morgunn í Chile

Frumvarpið verður nú aftur tekið til meðferðar í neðri deildum þingsins og búist er við því að það verði að lögum áður en vikan er úti.

„Þetta er sögulegur morgunn,“ sagði forseti Chile, Michelle Bachelet, er frumvarpið var samþykkt í þinginu. „Þingið samþykkti að afglæpavæða fóstureyðingu í þremur tilfellum, sem þýðir að við getum verið land í hverju konur geta tekið bestu mögulegu ákvörðun þegar svo er ástatt fyrir þeim.“

Frumvarpið hefur mætt nokkurri andstöðu af íhaldssamari væng stjórnmála í Chile. Þrátt fyrir það sýna niðurstöður kannanna í landinu fram á að um 70 prósent íbúa eru fylgjandi slökun á fóstureyðingabanninu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×