Erlent

Konan í stutta pilsinu látin laus eftir yfirheyrslur

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Konan sést ganga um sögufrægt virki í bænum Ushayqir en myndbandið vakti hörð viðbrögð á samfélagsmiðlum.
Konan sést ganga um sögufrægt virki í bænum Ushayqir en myndbandið vakti hörð viðbrögð á samfélagsmiðlum. Skjáskot/Twitter
Lögregluyfirvöld í Sádi Arabíu hafa sleppt ungri konu sem sást ganga um á almannafæri íklædd stuttu pilsi og stuttermabol. Myndband af fáklæddri konunni birtist á samfélagsmiðlum en lögregla yfirheyrði hana vegna málsins. Konan var ekki ákærð.

Myndbandið af konunni, sem sett var inn á samfélagsmiðla, vakti hörð viðbrögð í vikunni. Einhverjir kölluðu eftir því að konan yrði handtekin fyrir að brjóta íhaldssamar reglur landsins um klæðnað kvenna en aðrir komu þó konunni til varnar og lofuðu „hugrekki“ hennar.

Lögregla sleppti konunni lausri eftir yfirheyrslur á þriðjudag. Hún játaði að hafa gengið um sögufrægt virki í bænum Ushayqir í Sádi Arabíu töluvert fáklæddari en tíðkast þar í landi. Konan segir enn fremur að myndbandinu hafi verið hlaðið á netið án sinnar vitneskju.

Þá var konan ekki ákærð fyrir brot af neinu tagi.

Konum í Sádi Arabíu er skylt að klæðast víðum, skósíðum klæðnaði, svokölluðum „abaya,“ er þær fara út á meðal fólks. Þá verða þær einnig að hylja hár sitt en engar reglur gilda um það sem konurnar mega klæðast innan undir hefðbundnum klæðnaði.

Hér að neðan má sjá myndbandið sem vakti mikla hneykslan í Sádi Arabíu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×