Lífið

Bréf Tupac til Madonnu verður ekki boðið upp

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Tupac og Madonna voru par á hátindi ferla sinna á tíunda áratug síðustu aldar.
Tupac og Madonna voru par á hátindi ferla sinna á tíunda áratug síðustu aldar. Vísir/Getty
Tónlistarkonan Madonna hefur komið í veg fyrir að bréf, sem Tupac, fyrrverandi kærasti hennar, sendi henni úr fangelsi þegar samband þeirra stóð yfir, verði boðið upp. Þetta kemur fram á vef Guardian.

Madonna sakar fyrrverandi vinkonu og listrænan ráðgjafa sinn, Darlene Lutz, um trúnaðarbrest en Lutz ber ábyrgð á því að munir, sem áður voru í eigu Madonnu, voru til sölu á uppboði. Þar á meðal var bréfið sem Tupac skrifaði Madonnu en hún hefur nú komið í veg fyrir að það verði boðið upp.

Fyrirtækið sem hafði hlutina á uppboði sendi frá sér yfirlýsingu vegna afskipta Madonnu og sagði hana einungis hafa það að ásetningi að ata orðspor fyrirtækisins og Darlene Lutz auri.

Aðrir munir boðnir upp

Bréfið, sem er dagsett 15. janúar 1995 sendi Tupac þegar hann sat í fangelsi fyrir kynferðisofbeldi 18 mánuðum áður en hann var myrtur. Madonna og Tupac voru þá bæði á hátindi ferils síns.

Í bréfinu skrifar Tupac að samband Madonnu með svörtum manni gæti haft góð áhrif á hennar feril en ollið aðdáendum hans vonbrigðum.

„Að þú sjáist með svörtum manni hefur engin slæm áhrif á feril þinn, ef eitthvað myndi það láta þig virðast þeim mun meira spennandi,“ skrifaði Tupac. „En fyrir mig, að minnsta kosti var þá þá skoðun mín, að með því myndi ég skaða ímynd mína og valda því fólki sem kom mér á toppinn vonbrigðum.”

Uppboðið á öðrum munum Madonnu, þar á meðal gömlum flíkum, skartgripum og söngtextum, átti þó að fara fram í dag eins og áætlað var.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×