Erlent

Ófremdarástand í flóttamannamálum á Ítalíu

Ingvar Þór Björnsson skrifar
Ítölsk yfirvöld hafa hótað að meina skipum með flóttamönnum aðgang að höfnum landsins.
Ítölsk yfirvöld hafa hótað að meina skipum með flóttamönnum aðgang að höfnum landsins. EPA
Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna telur að Ítalía þurfi mun meiri stuðning við að taka á móti flóttamönnum. BBC greinir frá.

Það sem er að gerast á Ítalíu núna er að verða að harmleik,“ segir Filippo Grandi, formaður stofnunarinnar. Það er ekki einungis á ábyrgð ítalskra yfirvalda að koma með lausn á vandanum.“

Síðastliðinn fimmtudag lofaði Dimitris Avramopoulus, framkvæmdastjóri innflytjendamála hjá Evrópusambandinu að Ítalía fengi meiri fjárhagsstuðning frá sambandinu. Einnig hvatti hann aðildarríki til að sýna meiri samstöðu.

Innanríkisráðherrar Frakklands, Þýskalands og Ítalíu hyggjast ræða málið á fundi sínum á morgun í París. 

Grandi segir að 12.600  flóttamenn og hælisleitendur hafi komið til Ítalíu síðustu helgi. Þá nefnir hann einnig að 83.650 manns hafi komið til Ítalíu yfir Miðjarðarhafið frá byrjun árs en það er fjölgun um 20% frá sama tímabili í fyrra.

Talið er að 2.030 manns hafi látist á ferðum sínum yfir Miðjarðarhafið það sem liðið er af ári. 

Meirihluti þeirra flóttamanna sem koma þessa leiðina til Ítalíu koma frá Lýbíu en Lýbía er gjarnan kölluð „gáttin til Evrópu" fyrir flóttamenn frá fjölmörgum löndum. 

Ítalskir björgunarstarfsmenn flytja lík níu flóttamanna sem fundust látnir í björgunaraðgerð í dag.EPA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×