Golf

Er mjög stolt af sjálfri mér

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Ólafía Þórunn leyfði sér að brosa á hringnum er vel gekk. Sérstaklega er hún fékk þrjá fugla í röð en þá var hún í frábærri stöðu.
Ólafía Þórunn leyfði sér að brosa á hringnum er vel gekk. Sérstaklega er hún fékk þrjá fugla í röð en þá var hún í frábærri stöðu. Nordicphotos/getty
„Mér fannst ég spila mjög vel og höndla allar aðstæðurnar nokkuð vel. Völlurinn var auðvitað mjög erfiður þar sem þetta var risamót,“ segir Ólafía Þórunn Kristinsdóttir en hún var enn í Chicago í gær og búin að jafna sig eftir vonbrigðin yfir að hafa ekki komist í gegnum niðurskurðinn á PGA-meistaramótinu.

Fyrsta risamót sem íslenskur kylfingur tekur þátt í og okkar kona var grátlega nálægt því að komast áfram. Hún nældi í þrjá fugla í röð og var í góðri stöðu er aðeins sjö holur voru eftir. Þá fór allt að ganga á afturfótunum hjá henni. Hún fékk fjóra skolla í röð og spilaði sig með því út úr mótinu.

Ekki nógu dugleg að borða

„Það var mjög svekkjandi. Ég var ekki nógu dugleg að borða og fattaði ekki hversu svöng ég var. Það féll svolítið blóðsykurinn hjá mér og það hefur áhrif á allt. Þetta voru alger byrjendamistök,“ segir Ólafía sem er alltaf að læra og bæta sig.

„Maður er búinn að eyða allri orkunni í að berjast og berjast. Eðlilega er það því svekkjandi að ná ekki að komast áfram. Þegar blóðsykurinn fellur svona fer maður úr flæðinu sínu og þarf að þvinga hluti. Ég er alltaf með ákveðið kerfi hvernig ég slæ og ég fer að sleppa skrefum þar og annað í þeim dúr. Þetta eru hlutir sem skipta máli og einbeiting verður ekki nógu góð.“

Mótið var svolítið upp og niður hjá Ólafíu en hún sá það að á góðum degi getur hún svo sannarlega staðið í þeim allra bestu.

Ólafía stillir upp fyrir pútt á Olympia Fields.vísir/getty
Vantaði smá heppni

„Ef ég hefði verið smá heppin þá hefði ég verið með um helgina. Þetta var samt mjög gaman. Frábær umgjörð hérna og virkilega gaman að vera á stórmóti,“ segir Ólafía en hún þurfti að sinna meiri fjölmiðlavinnu og mæta á viðburði í aðdraganda mótsins. Miklu meira umstang en venjulega. Hvernig gekk henni að glíma við það?

„Það er minni tími til að hvílast þegar staðan er svona. Ég fékk dagskrána frá umboðsmanninum mínum viku fyrir mótið og ég vissi hvað ég væri að fara út í. Ég var því ekkert að láta þetta pirra mig neitt og fannst þetta bara gaman.“

Ólafía Þórunn tekur öllu sem hún er að upplifa með stóískri ró. Hún endurskrifar íslenska golfsögu hvað eftir annað og virðist njóta sín í þessu nýja umhverfi sínu.

Gafst aldrei upp

„Ég er mjög stolt af sjálfri mér. Ég gafst aldrei upp þó svo það gæfi á bátinn. Ég var stundum reið á hringnum en komst svo alltaf yfir reiðina og hélt áfram. Þetta er ekki síðasta risamótið mitt. Þetta er bara byrjunin. Maður er alltaf að læra mikið og í erfiðu aðstæðunum læri ég mest. Ég lít á hlutina þannig að ég geti bara bætt mig.“

Að taka þátt í LPGA-mótaröðinni er mikið ferðatöskulíf. Það er flakkað á milli móta og næsta mót hjá Ólafíu hefst næsta fimmtudag. Hún ætlar að slaka aðeins á áður en hún keyrir yfir á það mót.

Alltaf sömu fötin

„Við ætlum aðeins að túristast í Chicago og svo er fjögurra tíma keyrsla á næsta stað. Í gær fórum við í þvottahús að þrífa og maður er alltaf með sömu fötin. Það verður flott að komast heim og geta skipt þessum fötum út. Ég kemst kannski heim í júlí en í síðasta lagi í ágúst. Það verður gott,“ segir Ólafía Þórunn.


Tengdar fréttir

Ólafía úr leik eftir að hafa misst flugið á lokaholunum

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir er úr leik á PGA-meistaramótinu í golfi eftir ótrúlegan hring í kvöld. Hún var fyrir innan niðurskurðarlínuna er aðeins sjö holur voru eftir en þá fór allt á versta veg.

Sjáðu glæsilegan fugl hjá Ólafíu

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir er langt komin með sinn fyrsta hring á risamóti í golfi en hún tekur þátt á PGA-meistaramótinu í Chicago.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×