Innlent

Færist sífellt í vöxt að bændur heyi í stæður

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Það færist sífellt í vöxt að bændur heyi í stæður í stað þess að nota rúllutæknina. Grasið er þá saxað með múgsaxara og fluttu heim á bæ í stórum vögnum. Þar er vagninn losaður í stæðuna og síðan jafnað og troðið með 19 tonna þungum traktor. Eftir það er breitt yfir og stæðan fergjuð svo að loft komist ekki að og heyið verkist vel.

Bændur á Suðurlandi eru við það að klára fyrri slátt og eru jafnvel sumir búnir. Grasspretta hefur verið með allra besta móti. Verktakafyrirtækið Fögrusteinar í Birtingarholti í Hrunamannahreppi ver á milli bæjar og heyjar fyrir bændur, þar er stæðuheyskapur í stóru hlutverki.

Björn Harðarsson, bóndi í Holti, er ánægður með nýju heyskapartæknina sem hann er að prófa í fyrsta skipti.

„Mér líst bara mjög vel á þetta. Það eru ótrúleg afköst í þessu og spara manni mikla vinnu. Svo skilst mér að þetta sé mjög gott fóður líka. Sett í þetta íblöndunarefni og mygluvörn og allt mögulegt. Ég losna alveg við þessa vinnu að keyra heim rúllurnar og ég losna við rúlluplastið á veturna,“ segir Björn.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×