Innlent

Eldri borgarar boða aðgerðir

Benedikt Bóas skrifar
Eldri borgarar eru ekki sáttir eftir ákvörðun kjararáðs.
Eldri borgarar eru ekki sáttir eftir ákvörðun kjararáðs. vísir/getty
Stjórn Landssambands eldri borgara hefur sent frá sér ályktun í kjölfar ákvörðunar kjararáðs og kjaradóms til æðstu embættismanna og stjórnmálamanna. Segir þar að Landssambandið telji að mælirinn sé fullur. Ekki sé hægt að sætta sig við það óréttlæti sem viðgengst í þjóðfélaginu og mun sambandið taka upp harða baráttu til að stjórnvöld hlusti á kröfur þeirra sem eldri eru í samfélaginu. Frá 2009 hafa eldri borgarar beðið eftir leiðréttingu vegna sinna kjaraskerðinga sem námu um 17 milljörðum króna.

„Það er ekki nóg með að launahækkanir séu miklar, heldur eru þær afturvirkar allt að 19 mánuðum. Stjórnmálamenn horfa aðgerðalausir á, að með þessum ákvörðunum er verið að mismuna fólki. Við slíkt verður ekki unað.

Landssamband eldri borgara bendir á að leiðréttingar og afturvirkni eru orð sem stjórnvöld hafa gjörsamlega hafnað þegar eldri borgarar eiga í hlut þrátt fyrir loforð um að allar skerðingar frá 2009 yrðu leiðréttar.

Landssamband eldri borgara mótmælir því harðlega að félögum okkar sé refsað vinni þeir sér inn tekjur umfram 25 þúsund krónur á mánuði. Eftir það eru aðeins 27% af tekjunum sem fara í veski þeirra,“ segir orðrétt í ályktuninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×