Skoðun
Bolli Héðinsson
hagfræðingur

Skattsvikin og þjóðmálaumræðan

Bolli Héðinsson skrifar

Fjármálaráðherra setur á laggirnar starfshóp til að koma með hugmyndir um hvernig draga megi úr skattsvikum. Þar er tekið á afar brýnum viðfangsefnum sem varða þjóðina alla, t.d. um milliverðlagningu móður- og dótturfélaga og útborgun launa inn á bankareikninga. Meðal tillagna nefndarinnar er einnig stungið upp á að draga úr notkun reiðufjár með því að taka stærri bankaseðla úr notkun. Allt í einu snýst hin mikilvæga umræða um skattsvik um þetta eina atriði. Aftur og aftur verðum við vitni að því hversu mikill sannleikur er fólginn í orðum Nóbelskáldsins um að Íslendingar „…leysi vandræði sín með því að stunda orðheingilshátt og deila um titlíngaskít sem ekki kemur málinu við; en verði skelfíngu lostnir og setji hljóða hvenær sem komið er að kjarna máls.“

Í samræmi við þessi orð skáldsins þá vitum við að í haust verður lögð fram tillaga á Alþingi um að afnema einkasölu ríkisins á áfengi. Öll þjóðmálaumræða næsta vetrar mun snúast um þessa tillögu en ekkert um brýn úrlausnarefni stjórnvalda. Hvers vegna að ræða mál eins og t.d. hlutdeild þjóðarinnar í auðlindaarðinum þegar hægt er að ræða brennivín í búðir?

Auðvitað er það aðeins tímaspursmál hvenær seðlar og mynt leggjast af og öll greiðslumiðlun verður rafræn. Skýrsla starfshópsins breytir engu um það. Hvað muna margir eftir hinu algenga greiðsluformi ávísun? Það er ekki svo langt síðan að flestir gengu með tékkhefti á sér og til mikilla framfara horfði þegar búðarkassarnir prentuðu á tékkana fyrir kúnnann.

Í skýrslunni til fjármálaráðherra er einnig tekið undir mikilvægi þess að þjóðinni sé séð fyrir greiðslumiðlun sem þjónusti almenning og kortanotkunin verði almenningi að kostnaðarlausu. Þessi hugmynd er ekki ný af nálinni og mikilvægt að hið opinbera líti á greiðslumiðlun eins og hverja aðra þjónustu sem almenningi standi til boða líkt og gildir um aðra mikilvæga innviði samfélagsins án þess að vera ofurseldur einkafyrirtækjum á þessu sviði. Í þeim efnum er ekki eftir neinu að bíða.
http://www.visir.is/g/2017170308859/banki-sem-veitustofnun-almennings
 
Höfundur er hagfræðingur.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.