Erlent

Flesti ríki Bandaríkjanna neita að afhenda gögn um kjósendur

Kjartan Kjartansson skrifar
Kris Kobach er innanríkisráðherra Kansas-ríkis og varaformaður kosninganefndar sem Trump kom á fót með tilskipun.
Kris Kobach er innanríkisráðherra Kansas-ríkis og varaformaður kosninganefndar sem Trump kom á fót með tilskipun. Vísir/EPA
Yfirvöld í fjörutíu og fjórum ríkjum Bandaríkjanna hafa hafnað beiðni kosningarannsakanda Donalds Trump um upplýsingar um kjósendur. Rannsakandinn vildi meðal annars upplýsingar um kennitölur fólks, flokkstengsl og heimilisföng.

Trump skipaði nefnd til að rannsaka kosningar í Bandaríkjunum í maí eftir að hafa um margra mánaða skyn fullyrt án sannana að milljónir manna hefðu kosið ólöglega í forsetakosningunum í nóvember. Þess vegna hefði hann ekki hlotið flest greidd atkvæði yfir allt landið.

Kris Kobach, varaformaður forsetaráðsins um heilindi kosninga, sendi yfirvöldum í öllum fimmtíu ríkjum Bandaríkjanna bréf í síðustu viku þar sem hann óskaði eftir opinberum upplýsingum um kjósendur. Bað hann um full nöfn skráðra kjósenda, heimilsföng þeirra, fæðingardag, flokkstengsl, síðustu fjóra stafina í kennitölum þeirra, upplýsingar um hvaða kosningar þeir hefðu greitt atkvæði um frá 2006, sakaskrá, hvort þeir væru skráðir kjósendur í öðrum ríkjum, gögn um herþjónustu og hvort þeir hefðu búið erlendis.

Sjá einnig: Ríki neita að afhenda nefnd Trump persónugögn

Upplýsingabeiðnin hefur verið umdeild og hafa mörg ríkin dregið lögmæti hennar í efa. CNN-fréttastöðin segir að fyrirspurnir hennar hafi leitt í ljós að 44 ríki hafi hafnað beiðninni. Mörg þeirra telja að það standist ekki lög að afhenda upplýsinga um kennitölur eða flokkstengsl.

Gagnrýnendur hafa einnig bent á að rannsakendurnir hafi ekki hugað nægilega að tölvuöryggi. Vefgáttin sem ríkjunum var sagt að senda upplýsingarnar í geti verið auðvelt skotmark fyrir tölvuþrjóta.

Trump er ekki sáttur við ríki sem vilja ekki verða við beiðni nefndar hans sem hann kallaði „kosningasvindslnefnd“ í tísti á laugardag. Gaf hann í skyn að ríkin sem vildu ekki afhenda persónuupplýsingar um íbúa sína hefðu eitthvað að fela.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×