Innlent

Séra Halldór sakar kirkjuráðið um ólöglega meðferð fjármuna

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Stórólfshvolssókn deilir við þjóðkirkjuna um styrki til að byggingar nýrrar kirkju á Hvolsvelli.
Stórólfshvolssókn deilir við þjóðkirkjuna um styrki til að byggingar nýrrar kirkju á Hvolsvelli. vísir/anton brink
Séra Halldór Gunnarsson, formaður byggingarnefndar Stórólfshvolssóknar, segir Odd Einarsson, framkvæmdastjóra kirkjuráðs, ekki virðast skilja deilu sóknarinnar við kirkjuráð vegna styrkja til kirkjubyggingar sem ekki hafa skilað sér.

Halldór segir ágreining hafa verið milli sóknarnefndar og byggingarnefndar Stórólfshvolssóknar við kirkjuráð frá árinu 2011. Forsagan sé sú að kirkjuráð hafi ákveðið um miðjan desember 2010 að veita 10 milljónir króna til undirbúnings kirkjubyggingar á Hvolsvelli og tilkynnt þá ákvörðun formlega með bréfi rúmum mánuði síðar þar sem tiltekið hafi verið hvaða mánuði ársins sá styrkur yrði greiddur út.

„Ári síðar fékk sóknin verktakamiða um að þessi greiðsla hefði verið innt af hendi, sem kirkjuráð stóð ekki við og hefur síðan mótmælt, fyrst með framkvæmdastjóra kirkjuráðs og lögfræðingum Biskupsstofu,“ segir Halldór. Þegar ágreiningurinn hafi verið sendur til úrskurðarnefndar þjóðkirkjunnar 2015 hafi kirkjuráð tapað málinu en síðan unnið það fyrir áfrýjunarnefnd þjóðkirkjunnar, eins og komið hefur fram í Fréttablaðinu. Einnig hefur verið sagt frá því að Stórólfshvolssókn hefur stefnt þjóðkirkjunni fyrir dómstóla vegna málsins á þeim grundvelli að ekki hafi verið skipaðir sérfróðir menn í áfrýjunarnefndina.

Halldór Gunnarsson, formaður byggingarnefndar Stórólfshvolssóknar.
„Þetta mál er einfalt, sem framkvæmdastjóri kirkjuráðs virðist ekki skilja,“ segir Halldór. Alvarlegra sé að Oddur vísi rangt til um framhald mála eftir að fyrstu 10 milljónir styrksins áttu að greiðast. Oddur vitni til leiðbeininga frá kirkjuráði fyrir greiðslur úr Jöfnunarsjóði sókna sem aðeins hafi átt við árið 2006 og ekki verið staðfestar með starfsreglum eða reglugerð. Um Jöfnunarsjóðinn gildi hins vegar reglugerð ráðherra frá árinu 1991.

„Þar segir nákvæmlega hvað eigi að fylgja umsókn, það er að segja kostnaðar- og framkvæmdar­áætlun, ásamt teikningum en hvergi er minnst á þarfagreiningu, sem kirkjuráð aftur og aftur hefur sagt að liggi ekki fyrir þó að hún hafi verið unnin og send kirkjuráði ásamt áætlun um fjármögnun ef kirkjuráð stæði við úthlutun til undirbúnings og síðan sitt vilyrði, samtals 90 milljónir til byggingarinnar,“ útskýrir Halldór.

„Alvarlegast er hvernig kirkjuráð hefur meðhöndlað ólöglega fjármuni Jöfnunarsjóðs sókna allt frá hruni, með greiðslum úr Jöfnunarsjóði sókna til kirkjumálasjóðs og biskupsstofu, til dæmis í þessu eina máli með ákvörðun kirkjuráðs á fundi 9. júní 2015, þegar ágreiningsmálin voru til úrskurðar hjá úrskurðarnefndinni, að fella niður vilyrði um greiðslu úr Jöfnunarsjóðnum til Stórólfshvolssóknar að upphæð 30 milljónir og greiða í þesst stað úr Jöfnunarsjóðnum 33 milljónir til Biskupsstofu,“ segir Halldór Gunnarsson. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×