Enski boltinn

Nýliðarnir kaupa framherja á metfé

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Steve Mounié er stór og sterkur framherji.
Steve Mounié er stór og sterkur framherji. vísir/getty
Huddersfield hefur fest kaup á benínska framherjanum Steve Mounié frá Montpellier.

Talið er að Huddersfield hafi borgað 11,5 milljónir punda fyrir hinn 22 ára gamla Mounié sem skrifaði undir fjögurra ára samning við félagið.

Mounié er uppalinn hjá Montpellier en sló í gegn sem lánsmaður hjá Nimes á þarsíðasta tímabili þar sem hann skoraði 11 mörk í 32 leikjum í frönsku B-deildinni.

Á síðasta tímabili skoraði Mounié 14 mörk í 35 leikjum fyrir Montpellier í frönsku úrvalsdeildinni.

Í gær keypti Huddersfield einnig enska kantmanninn Tom Ince og bandaríska landsliðsmanninn Danny Williams og fékk framherjann Kasey Palmer að láni.

Ince, sem er 25 ára, kemur frá Derby County. Hann skrifaði undir þriggja ára samning við Huddersfield. Williams, sem kemur frá Reading, gerði tveggja ára samning við Huddersfield.

Palmer, sem er tvítugur, lék sem lánsmaður með Huddersfield í ensku B-deildinni í fyrra og snýr nú aftur til félagsins.

Huddersfield vann sér sæti í ensku úrvalsdeildinni með sigri á Reading í umspili í vor. Huddersfield hefur ekki spilað í efstu deild síðan 1972.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×