Innlent

Notar förustafi til að draga úr skordýrafælni barna

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Birna Dís Bjarnadóttir, leik- og grunnskólakennari, sem hefur haldið gæludýrið förustafi í mörg ár, segir mikilvægt að draga úr skordýrafælni barna og auka forvitni þeirra á náttúrunni.

Birna hefur lengi haft áhuga á skordýrum og hefur hún haldið förustafi sem gæludýr í mörg ár.  Á veturna fer Birna Dís með förustafina í skólann þar sem hún fræðir börnin um dýrin. Á sumrin búa þeir hins vegar heima hjá henni enda engin börn í skólanum til að hugsa um þá.

„Tilgangurinn er auðvitað fyrst og fremst að bera virðingu fyrir náttúrunni og öllum þeim skordýrum sem þar búa því við erum mjög hrædd mörg hver við til dæmis sérstaklega kóngulær. Þannig að þarna sé ég fyrir mér tækifæri á að vinna með þennan ótta og þetta eru allt meinlaus skordýr og við getum lært helling af þeim,“ segir Birna Dís.

Förustafir lifa ekki í íslenskra náttúru en fást stöku sinnum í dýrabúðum. Birna segir að það sé mjög auðvelt að halda þá.

Birna segist vera handviss um að þetta uppátæki hennar hafi komið í veg fyrir skordýraótta marga barna.  Nemendur hennar séu langflestir mjög spenntir fyrir dýrunum.

Þá deilir dóttir Birnu og vinkonur hennar  þessum áhuga með Birnu Dís og vita margt um förustafina eins og sjá má á meðfylgjandi myndskeiði.

Fjarðarpósturinn fjallaði um uppátæki Birnu og má sjá viðtal við hana hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×