Handbolti

Snorri Steinn: Kemur í ljós hvað ég spila mikið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Af blaðamannafundinum í Valshöllinni.
Af blaðamannafundinum í Valshöllinni. vísir/eyþór
Snorri Steinn Guðjónsson var kynntur sem spilandi þjálfari Íslands- og bikarmeistara Vals á blaðamannafundi í Valshöllinni í hádeginu í dag.



Snorri Steinn stýrir Valsliðinu ásamt Guðlaugi Arnarssyni. Óskar Bjarni Óskarsson stígur til hliðar hjá meistaraflokki karla en verður yfirþjálfari allra flokka hjá Val. Á blaðamannafundinum voru Árni Þór Sigtryggsson og Magnús Óli Magnússon einnig kynntir sem nýir leikmenn Vals.

Kemur í ljós hversu mikið ég spila

Snorri Steinn segist vera ánægður með að vera kominn heim eftir 14 ára farsælan feril í atvinnumennsku.

„Ég gerði fínan starfslokasamning við Nimes og í kjölfarið ræddi ég við Valsara og við vorum sammála um að ég kæmi inn í félagið. Við fundum flöt á því sem ég held að allir séu ánægðir með,“ sagði Snorri Steinn í samtali við Vísi eftir blaðamannafundinn.

Snorri Steinn átti góð ár í Frakklandi og er í hörkuformi. Hann segir þó óvíst hversu mikið hann spilar með Val í vetur.

„Ég er í góðu standi og mun æfa með liðinu. Það verður bara að koma í ljós hvað ég spila mikið. Ég læt það ráðast,“ sagði Snorri Steinn. Að hans sögn setja Valsmenn stefnuna hátt fyrir næsta tímabil.

Haldið áfram á sömu braut

„Við ætlum að halda áfram á sömu braut. Íslands- og bikarmeistarar hafa það yfirleitt að markmiði að verja titlana. Við höfum reyndar ekkert rætt það en það er nokkuð sjálfsagt hvað ætlum að gera,“ sagði Snorri Steinn sem er einn fjölmargra atvinnumanna sem eru komnir aftur í Olís-deildina.

„Mér líst mjög vel á hana. Þetta er frábært fyrir íslenskan handbolta og svolítið eins og þetta á að vera,“ sagði hann.

Nánar verður rætt við Snorra Stein í Fréttablaðinu á morgun.


Tengdar fréttir

Svona var Snorri Steinn kynntur til leiks

Vísir var með beina útsendingu og beina textalýsingu frá blaðamannafundi þar sem Snorri Steinn Guðjónsson var kynntur sem spilandi þjálfari Íslands- og bikarmeistara Vals.

Elverum vildi fá Gíslasyni

Norska liðið Elverum vildi fá til sín bræðurna Orra Frey og Ými Örn Gíslasyni, en þeir hafa ákveðið að vera áfram í herbúðum Vals.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×