Erlent

Beraði sig við lögreglumenn og sagði þeim að blása

Kjartan Kjartansson skrifar
Þegar manninum var gert að blása í áfengismæli beraði hann kynfæri sín við lögreglumenn. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki.
Þegar manninum var gert að blása í áfengismæli beraði hann kynfæri sín við lögreglumenn. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki. Vísir/Getty
Dómstóll á Norðvestur-Spáni hefur dæmt ökumann bifhjóls í níu mánaða fangelsi fyrir að flýja lögreglu og svívirða lögreglumenn. Þegar maðurinn var beðinn um að blása í áfengismæli leysti hann niður um sig buxurnar og sagði lögreglumönnunum „að blása“.

Atvikið átti sér stað í borginni A Coruña síðla nætur í maí 2015. Lögreglumenn sáu þá til mannsins klöngrast upp á bifhjól sitt og virtist hann eiga erfitt með að halda jafnvægi, að því er segir í frétt spænska blaðsins La Voz de Galicia.

Þegar lögreglumenn hugðust stöðva för mannsins gaf hann hins vegar í og lét elta sig um stræti borgarinnar á miklum hraða. För hans lauk þegar hann datt af hjólinu þegar lögreglubílar þrengdu að honum.

Sagði að dómarinn gæti líka komið til að blása

Maðurinn brást hinn versti við þegar honum var sagt að hann yrði látinn blása í áfengismæli og kallaði lögreglumennina öllum illum nöfnum. Hótaði hann þeim meðal annars ofbeldi.

Neitaði hann svo að blása í áfengismælinn jafnvel þó að honum væri sagt að hann yrði ákærður ef hann gerði það ekki. Þess í stað beraði hann kynfæri sín við lögreglumann og sagði „Blástu hérna“.

Þegar manninum var sagt að hann yrði færður fyrir dómara svaraði hann: „Þá getur dómarinn líka komið og blásið hérna.“

Fyrir utan fangelsisdóminn var maðurinn sviptur ökuréttindum í fimmtán mánuði. Hann var einnig dæmdur fyrir að hafa ekið ölvaður öðru sinni mánuði eftir upphaflega brotið og svívirt lögreglumenn aftur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×