Fótbolti

Sigurður Egill: Þetta hlaut að detta

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sigurður Egill skaut Valsmönnum áfram í 2. umferð forkeppni Evrópudeildarinnar.
Sigurður Egill skaut Valsmönnum áfram í 2. umferð forkeppni Evrópudeildarinnar. vísir/ernir
„Við erum gríðarlega ánægðir. Þetta var gríðarlega góður leikur hjá okkur, sérstaklega í fyrri hálfleik. Við fengum urmul færa en vorum óheppnir að fara með 0-0 stöðu inn í hálfleikinn. Við vorum pínu svekktir en ákváðum að halda skipulagi því þetta hlaut að detta fyrir okkur,“ sagði Sigurður Egill Lárusson sem tryggði Valsmönnum sigur á Ventspils í 1. umferð forkeppni Evrópudeildarinnar í kvöld.

Valur var miklu sterkari aðilinn í leiknum í kvöld en markið lét bíða eftir sér. Sigurður Egill segist ekki hafa orðið örvæntingarfullur þótt staðan væri markalaus langt fram eftir leik.

„Nei, við fengum fullt af færum og þetta hlaut að detta. Við ætluðum að vera þéttir til baka og halda áfram,“ sagði Sigurður Egill.

Fyrri leik Vals og Ventspils lyktaði með markalausu jafntefli. Valsmenn voru varfærnir í þeim leik og héldu marki sínu hreinu eins og þeir ætluðu að gera.

„Þetta var svolítið öðruvísi leikur. Við spiluðum annað kerfi úti og ætluðum bara að passa markið okkar. Þetta fór samkvæmt uppskriftinni. Við ætluðum að halda jafntefli úti og eiga góða möguleika á heimavelli þar sem við erum mjög sterkir,“ sagði Sigurður Egill.

Það verður nóg að gera hjá Valsmönnum á næstunni, bæði í Pepsi-deildinni og Evrópudeildinni. Sigurður Egill segist fagna því.

„Það er stórleikur núna á sunnudaginn [gegn Stjörnunni] og svo förum við að einbeita okkur að Slóvenunum. Svona á þetta að vera,“ sagði Sigurður Egill en Valsmenn mæta Domzale frá Slóveníu í næstu umferð.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×