Enski boltinn

Defoe grét er hann ræddi um sex ára dauðvona vin sinn | Myndband

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Vinirnir Bradley Lowery og Jermain Defoe.
Vinirnir Bradley Lowery og Jermain Defoe. vísir/getty
Jermain Defoe, leikmaður Bournemouth, gat ekki haldið aftur af tárunum á blaðamannafundi í gær þar sem hann ræddi um vin sinn Bradley Lowery.

Vinátta Defoes og Bradleys hefur vakið mikla athygli. Bradley er sex ára gamall drengur sem er með ólæknandi krabbamein og á aðeins nokkra daga eftir ólifaða.

Defoe og Bradley kynntust þegar sá síðarnefndi var lukkudrengur á leik Sunderland og Everton á síðasta tímabili. Þeir urðu miklir vinir og Bradley leiddi Defoe t.a.m. inn á völlinn fyrir landsleik Englands og Litháen á Wembley í mars.

„Staðan er ekki góð. Þetta er spurning um nokkra daga,“ sagði hinn 34 ára gamli Defoe aðspurður um líðan Bradleys á blaðamannafundi Bournemouth í gær.

Defoe er í góðu sambandi við fjölskyldu Bradleys og heimsótti vin sinn á dögunum.

„Ég tala við fjölskyldu hans á hverjum degi. Ég hitti hann fyrir nokkrum dögum og það var erfitt að sjá hann þjást,“ sagði Defoe.

„Hann verður alltaf í hjarta mér, svo lengi sem ég lifi. Þetta er erfitt og setur hlutina í nýtt samhengi.“

Myndband af blaðamannafundinum þar sem Defoe talar um Bradley má sjá með því að smella hér.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×