Innlent

Mögulegar tafir vegna herts eftirlits

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Hert eftirlit verður á Keflavíkurflugvelli í haust.
Hert eftirlit verður á Keflavíkurflugvelli í haust. vísir/vilhelm
Landamæraeftirlit yfir ytri landamæri Schengen-svæðisins verður hert og mun breytingin einnig taka gildi á Íslandi. Reglurnar tóku gildi 7. apríl. Ísland tilkynnti að sex mánaða aðlögunartími fyrir Keflavíkurflugvöll yrði nýttur og tekur breytingin því gildi hér á landi þann 7. október nema óskað verði eftir frekari framlengingu.

Meginreglan verður sú að kerfisbundið/ítarlegt eftirlit verður með öllum, að því er segir í skriflegu svari dómsmálaráðuneytisins til Fréttablaðsins.

Breytingin tekur einnig gildi á Kastrup-flugvelli í Danmörku. Stjórnendur á Kastrup sögðu við danska ríkisútvarpið að búast mætti við lengri bið og seinkun á flugi til 2019 vegna aukins eftirlits. Þegar mest sé að gera megi jafnvel gera ráð fyrir að farþegar missi af tengiflugi.

Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, segir í skriflegu svari til Fréttablaðsins að skoðað verði á næstunni hvernig staðið verði að því að mæta þessum nýju reglum. „Ekki er ljóst á þessari stundu hvort tafir verða og þá hversu miklar þær kunni að verða. Það verður að koma í ljós. Lögreglustjórinn á Suðurnesjum vinnur stöðugt að því að fylgjast með og bregðast við breytingum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×