Viðskipti innlent

Ekran og Íslensk matvara fá að sameinast

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Jón Ingi Einarsson er framkvæmdastjóri Ekrunnar.
Jón Ingi Einarsson er framkvæmdastjóri Ekrunnar. vísir/anton brink
Samkeppniseftirlitið telur ekki forsendur til að aðhafast vegna samruna Ekrunnar ehf. og Íslenskra matvara ehf. Eftirlitið hefur haft mál fyrirtækjanna til skoðunnar frá því 7. júní síðastliðinn.

Í ákvörðun eftirlitsins segir að þrátt fyrir að fyrirtækin geti talist starfa á mörgum skyldum mörkuðum er ljóst að staða þeirra á hverjum þeirra er ekki það sterk að hætta sé á því að samruninn geti talist samkeppnishamlandi.

Ekran rekur innflutnings- og verslunarfyrirtæki sem starfar á stóreldhúsamarkaði og Íslensk matvara sérhæfir sig í innflutningi á erlendum búvörum.

Ekran er að fullu í eigu 1912 ehf. sem auk Ekrunnar er ennfremur móðurfélag Nathan & Olsens ehf. Íslensk matvara er hins vegar félag í eigu einstaklings.

„Að undangenginni rannsókn og með hliðsjón af gögnum málsins er það mat Samkeppniseftirlitsins að samruninn hindri ekki virka samkeppni á mörkuðum málsins. Því eru ekki forsendur til að aðhafast vegna samrunans,“ segir á vef Samkeppniseftirlitsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×