Innlent

Lögreglan stöðvaði tvær umfangsmiklar kannabisræktanir

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Samtals 500 plöntur voru í ræktun í húsunum auk  þess sem lagt var hald á tvö kíló af maríjúana.
Samtals 500 plöntur voru í ræktun í húsunum auk þess sem lagt var hald á tvö kíló af maríjúana. vísir/stefán
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði í fyrradag tvær umfangsmiklar kannabisræktanir með samtals 500 kannabisplöntum. Þrír menn voru handteknir vegna málsins. 

Lögreglan framkvæmdi húsleit í tveimur húsum á höfuðborgarsvæðinu og stöðvaði tvær kannabisræktanir.

Samtals 500 plöntur voru í ræktun í húsunum auk  þess sem lagt var hald á tvö kíló af maríjúana en þar var um að ræða efni sem búið var að skera og þurrka af plöntum sem höfðu verið í ræktun á sama stað og var tilbúið til dreifingar og neyslu.

„Miðað við þær ræktanir sem við höfum við að taka niður á síðustu misserum þá er þetta stórt. Mikið af plöntum sem við haldlögðum,“ segir Grímur Grímsson, yfirmaður miðlægrar rannsóknardeildar LRH.

Hann vill þó ekki veita upplýsingar um hvar umrædd húsnæði eru á höfuðborgarsvæðinu.

Þrír íslenskir karlmenn voru handteknir í tengslum við málið en þeim var öllum sleppt úr haldi í gærkvöldi. Að sögn Gríms játuðu þeir við skýrslutökur hjá lögreglu að hafa staðið að ræktuninni. „Málið er langt komið og eins og ég sagði, það telst upplýst og nú þarf bara að klára og senda ákærusviði,“ segir Grímur.  

Grímur segir að plönturnar séu í vörslu lögreglu. „Það verður að gera það á meðan á málarekstrinum stendur og þær eru geymdar bara hjá lögreglu á svæði sem við höfum til þess að geyma svona efni.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×